Fara í efni

Borað eftir heitu vatni á Gálmaströnd

Fréttir

Orkubú Vestfjarða hefur hafist handa við að bora eftir heitu vatni á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð. Lengi hefur verið talið að svæðið kunni að vera auðugt af heitu vatni sem nýta mætti til eflingar atvinnuuppbyggingar á Ströndum. Fyrri tilraunir bentu allar til þess að heitt vatn væri að finna á svæðinu og er nú búið að afmarka frekar ákjósanlega staðsetningu borholunnar auk þess sem betri tækni til borunar er komin frá því síðast var reynt.

Á síðasta ári veitti Sigurður Ingi Jóhannesson, Innviðaráðherra, Fjórðungssambandi Vestfirðinga 17 m.kr. styrk til jarðhitarannsókna á Gálmaströnd vegna svokallaðrar C.1. aðgerðar. Í henni felast styrkir til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Komið er á aðra viku síðan boranir hófust og er búið að bora niður á 400 metra dýpi. Á um 380 metra dýpi fannst 25 gráðu heitt vatn og lofar framhaldið góðu um að heitara vatn finnist þegar neðar dregur. Verklok eru áætluð um mánaðamótin janúar-febrúar. Sigurður Líndal Þórisson verkefnastjóri Sterkra Stranda er afar ánægður með þetta mikla framframaskref og segir að þátttaka svæðisins í brothættum byggðum hafi mikið að segja:

„Án Sterkra Stranda má fullyrða að ekkert hefði orðið af þessu verkefni, en þetta verkefni hefur alla burði til að verða eitt stærsta framfaraskref í innviðauppbyggingu á Ströndum í mörg ár.“