| |

Um klasa

Kaldalón
Kaldalón

Klasar hafa verið skilgreindir sem landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig í samvinnu. Því er í raun verið að tala um alla aðila sem tengjast ákveðinni atvinnugrein á afmörkuðu landsvæði.

Fyrirtækjaklasa má finna úti um allan heim og í öllum atvinnugreinum. Staðsetning fyrirtækjaklasa er ekki háð tilviljun heldur er það eitthvað í umhverfinu sem skýrir að ákveðnar atvinnugreinar hafa sprottið upp á tilteknum stöðum. Því er í raun ekki hægt að byggja klasa upp frá grunni heldur verður hann til við tengsl fyrirtækja. 

Sjávarútvegur á Íslandi er öflugur sökum gjöfulla fiskimiða og skynsamrar fiskveiðistjórnunar. Nokkrir sjávarútvegsklasar starfa á Íslandi. Út úr sjávarútveginum hafa síðan sprottið aðrar atvinnugreinar jafnvel fyrirtækjaklasar sem byggir á reynslu úr útgerðarsögunni. Má þar nefna hönnun og smíði fiskvinnsluvéla og voga.

Þótt ekki sé hægt að búa til klasa frá grunni geta sprottið nýjar greinar frá þeim eldri. Þróun atvinnulífsins heldur áfram.

Með því að vinna skipulega og í góðu samráði í klasasamstarfi er mögulegt að auka nýsköpun og efla þrótt atvinnugreinarinnar. Líkja má klasasamstarfi við smurolíu á vél sem fær hana til að ganga mýkra, betur og jafnvel hraðar.

Á Vestfjörðum hafa verið mótaðir klasar, þeir eru:

  • Sjávarútvegsklasi
  • Mennta- og rannsóknaklasi
  • Ferðaþjónustu- og menningarklasi
  • Laxeldisklasi
  • Vísir að jarðvarmaklasa á Reykhólum 

Vaxtarsamningur Vestfjarða miðar að því að fá aðila innan klasa til að starfa saman að verkefnum sem menn koma sér saman um. Með samstarfinu er styrkari stoðum rennt undir verkefni sem fyrirtækiin gætu síður náð að sinna ein og sér.