| | |

Veisla að Vestan er samstarfsverkefni um mat og ferðaþjónustu á Vestfjörðum.  Tilgangur Veisla að Vestan er að auka sýnileika og gæðaímynd vestfiskra matvæla.

Veitingastaðir í Veisla að Vestan leggja metnað sinn í að bjóða upp á úrvals staðbundið hráefni og gera þeim réttum sérstök skil á matseðli sínum með því að merkja þá sérstaklega með merki Veislu að Vestan.

Framleiðendur í Veisla að Vestan leggja metnað sinn í að framleiða úrvals vöru sem er vestfirsk að uppruna og eru vörurnar sérstaklega merktar með merki Veisla að Vestan.

Verslanir í Veisla að Vestan leggja metnað sinn í að bjóða upp á fjölbreytt vöruframboð frá framleiðendum  sem eru þátttakendur í Veisla að Vestan.

Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti er umhverfissafn í þeim skilningi að það reynir að endurspegla sem best það getur umhverfi sitt. Það er líka safn hins daglega lífs þar sem munir genginna kynslóða horfa við gestum og minna á þann tíma þegar sjálfsþurftarbúskapur var lífsmáti Íslendinga. Með ákveðinni einföldun má því segja að safnið á Hnjóti sé matarsafn í þeim skilningi að þar tengjast flestir munirnir fæðuöflun á einn eða annan hátt.

Í safninu á Hnjóti er rekin kaffitería og þar hefur frá upphafi verið reynt að hafa sem mest af hefðbundnum veitingum til sölu, svo sem flatkökur með hangikjöti og hveitikökur með reyktum silungi úr héraði. Það hefur verið mikil lukka með þessar veitingar og gestir, sér í lagi útlendingar, eru mjög spenntir að smakka eitthvað sem er íslenskt. Að mínum dómi er það því mikill akkur fyrir safnið á Hnjóti að taka þátt í matarverkefninu Veisla að Vestan og reiða fram veitingar úr héraðinu. Það eykur fjölbreytnina í vöruúrvali og, sem ekki er síður mikilvægt, það eflir tengsl safnsins við þá sem eru að vinna að nýsköpun og vöruþróun. Jafnframt er nauðsynlegt, ekki hvað síst í því ástandi sem nú er hér á landi, að við stöndum saman að því að rækta landsbyggðina í öllum skilningi.

Sigurbjörg Ásgeirsdóttir safnstýra á Hnjóti 2010

Við, Húsavíkurbændur, höfum á undanförnum árum velt fyrir okkur og leitað leiða til að auka tekjur okkar af þeirri framleiðslu og þekkingu sem fyrir hendi er á búinu. Ein þeirra leiða er úrvinnsla sauðfjárafurða og bein sala til neytenda. Með öðrum orðum, að sem mestur hluti þess virðisauka sem verður af framleiðslu okkar skili sér sem tekjur fyrir búið.
Nú þegar höfum við þróað sælkeravöru úr ærkjöti, Lostalengjur og sent til valinna einstaklinga og veitingahúsa til að kanna stöðu vörunnar á markaði. Viðtökur hafa verið frábærar.

Það hefur heldur ekki farið fram hjá okkur að neytendur, hvort heldur sem er innlendir eða erlendir, hafa í ríkari mæli leitað eftir matvælum, sem eru upprunamerkt og rekjanleg. Þessi  matvæli þurfa að uppfylla uppfylla væntingar neytandans um hreinleika, dýravernd og ekki sé gengið á náttúru-og umhverfisgæði. Þá þarf úrvinnsla þeirra að uppfylla reglur þar að lútandi.

Í Húsavík er búið að setja upp kjötvinnslu sem er með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Starfsemin er þegar hafin. Frá hausti komanda  er stefnt að því að taka verulegan hluta af innleggi heim úr afurðastöð og selja beint til neytenda. Væntanlegum kaupendum gefst því kostur á að kaupa Strandalamb, hlutað og pakkað eða reykt, allt eftir óskum hvers og eins.  Þar verða áfram búnar til Lostalengjur og  unnið verður áfram að vöruþróun. 
Það er mikils virði fyrir okkur að taka þátt í matvælaverkefni Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Veisla að Vestan. Með þátttöku myndast tengslanet um Vestfirði milli framleiðenda, veitinga-og söluaðila. Sameiginlegir gæðastaðlar og vörumerkingar auka traust neytenda á vörunni og er það okkur í hag að fá þannig stimpil á framleiðslu okkar. Það kemur einnig til með að hjálpa til við sölu-og markaðsstarf að vera með sameiginlegan vettvang í samstarfi við fagaðila.

Hafdís og Matthías Húsavík á Ströndum

Undanfarin ár höfum við í Heydal lagt metnað okkar í að byggja upp fjölbreytta náttúru-, menningar -, og matartengda ferðaþjónustu. Við höfum m.a. lagt áherslu á að nota sem mest hráefni úr heimabyggð, ber, silung, lax, heimaræktað grænmeti og heimabakað brauð auk þess sem við kaupum hráefni af svæðinu.

Þegar farið var af stað með matarverkefnið sem nú hefur hlotið nafnið ,,Veisla að Vestan” fannst mér frábært að fá tækifæri til að taka þátt í verkefninu. Einungis 3 % erlendra ferðamanna sem landið heimsækja leggja leið sína til Vestfjarða. Við eigum því verk að vinna.

Vottun á vestfirskum matvörum og auglýsing um sérstöðu þeirra og gæði er vonandi ein leið til að vekja forvitni og áhuga á fjórðungnum. Vottuð vara er trúverðugri, veitir aðhald og sýnir ákveðinn metnað og ferðamenn treysta okkur betur. Traust er okkur Íslendingum, eins og við vitum, mjög mikilvægt um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá, þegar fleiri koma inn í verkefnið, alla þá matartengdu framleiðslu sem svæðið hefur að geyma og skiptast á hugmyndum.

Við erum mjög dreifð á Vestfjörðum og eigum oft ekki heimangengt og vinnum því frekar hver í sínu horni. Ég er hins vegar sannfærð um að samtaka máttur er forsenda þess að okkur takist að byggja upp blómlegt og eftirsóknarvert ferðamannasvæði á Vestfjörðum bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Ég er bjartsýn á frekara samstarf og þakka forystumönnum verkefnisins góð störf og þarft framtak.

Stella Guðmundsdóttir Heydal

 • Merkinu er ætlað að vera gæðastimpill fyrir vestfirsk matvæli sem og þá aðila sem bjóða upp á vestfirsk matvæli.
 • Merkið er notað til að vekja athygli á Vestfirskum matvælum og þeim aðilum sem bjóða upp á vestfirsk matvæli.
 • Merkið geta þeir einir notað sem starfa samkvæmt lögum um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

Hverjir mega nota merkið?

Framleiðendur

 • Afurðir skulu upprunnar, framleiddar eða verkaðar á Vestfjörðum og unnar við bestu aðstæður samkvæmt lögum og reglum.
 • Framleiðsluhúsnæðið skal staðsett á Vestfjörðum og samþykkt, með gilt starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.
 • Varan skal annaðhvort endurspegla það að verið er að endurvekja þjóðlega vestfirska hefð í matargerð eða að endurspegla vöruþróun sem hefur  skírskotun til svæðisins og upprunans.

Framreiðendur

 •  Framreiðendur sem nota merkið skulu vera með gilt starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.
 • Vara skal vera sérmerkt og gert hátt undir höfði á matseðlum veitingahúsa.
 • Einungis skulu afurðir löglegra framleiðenda merkt merkinu á matseðlum. 
 • Enginn sjoppumatur, svo sem hamborgarar, pízzur og pylsur skulu merktar merkinu.
 • Upplýsingar um hráefni / rekjanleiki skulu liggja fyrir til að framfylgja eftirliti gæðamála.

Verslanir

 • Til að gæta samræmis við merkingar skulu verslanir sérmerkja vörur með þar til gerðum skiltum, borðum og öðru markaðsefni sem er staðlað og félagið hefur samþykkt. 
 • Vörunum skal gert tilhlýðilega hátt undir höfði við framstillingu í verslunum.

Hverjir geta verið með

 • Allir geta verið þátttakendur í verkefninu sem starfa að vestfirskum matvælum eða hafa hug á slíku.
 • Allir þátttakendur bera ábyrgð á að tilkynna frávik og galla sem varða gæði vörunnar og/eða misnotkunar á gæðamerki verkefnisins. Félögum er þannig treyst til að líta hver með öðrum.
 • Skrá þarf hverja nýja vöru til félagsins, sem fyrirtæki hyggst merkja með merki Veislu að Vestan.

Skráning félagsmanna og réttur

 • Skráning félagsmanna fer fram hjá verkefnastjóra verkefninsins, hægt er að senda beiðni um skráningu á viktoria@atvest.is .
 • Árgjald innifelur eftirfarandi
  • 1 atkvæði á aðalfundi
  • Merkið og leyfi til notkunar á því uppfylli umsækjandi lög um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.
  • Startpakki með kynningarefni félagsins, límmiðar, spjöld og þ.h.
  • Forgang á sýningar og viðburði sem félagið stendur að.