| | |

Stofnun Atvinnuþróunarfélags á Vestfjörðum - Grein Guðrúnar Stellu Gissurardóttir

Eftirfarandi grein eftir Guðrúni Stellu Gissurardóttir birtist í blaðinu Bæjarins Besta þann 20.október 2015 (http://bb.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=104219)

  

Stofnun Atvinnuþróunarfélags á Vestfjörðum

Aðdragandi þess að hópur kvenna gekkst fyrir því að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hf var stofnað má rekja til átaksverkefnis sem hópur kvenna á Vestfjörðum stóð fyrir.

Í byrjun ársins 1991 kom fram í eldhúsumræðum nokkurra kvenna áhyggjur að atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum. Atvinnulíf væri einhæft, fáar konur í atvinnurekstri og lágt menntunarstig. Konur flyttu af svæðinu til að auka atvinnumöguleika sína. Efndu þær til ráðstefnu um atvinnumál kvenna á Ísafirði haustið 1991 undir forystu Magdalenu Sigurðardóttur. Í kjölfar ráðstefnunnar starfaði áhugahópur um atvinnumál kvenna á Vestfjörðum áfram en niðurstöður ráðstefnunnar voru þær að brýnt væri að ráða konu sem atvinnuráðgjafa til að meta hugmyndir og aðstoða konur á svæðinu við að koma á fót atvinnurekstri. Setti hópurinn sér það markmið að koma af stað átaki til að fjölga atvinnutækifærum kvenna og gera þau fjölbreyttari með því að ráða sérstakan atvinnuráðgjafa í atvinnumálum kvenna. Áhugahópurinn hélt fundi víðs vegar um Vestfirði til að kynna hugmyndir sínar og hafði forgöngu um að afla fjár til átaksins. Fékkst m.a. fjármagn til átaksverkefnis í Atvinnumálum kvenna frá Félagsmálaráðuneyti, Byggðastofnun og sveitarfélögum á svæðinu auk þess sem að stéttarfélög, bankar, einstaklingar og fyrirtæki lögðu verkefninu lið.  

Verkefnastjórn átaksins var síðan formlega skipuð og skipti hún með sér verkum á eftirfarandi hátt: Formaður, Magdalena Sigurðardóttir, skólaritari, varaformaður; Guðrún Stella Gissurardóttir, skólastjóri, gjaldkeri; Sigurborg Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri, ritari; Ingibjörg Sigfúsdóttir, bankamaður, meðstjórnandi; Aðalsteinn Óskarsson, forstöðumaður Byggðastofnunar á Ísafirði sem var tilnefndur frá Byggðastofnun sem gerði kröfu um stjórnarmann í átakinu vegna þeirra fjármuna sem stjórnvöld lögðu til.  Í varastjórn voru Anna Lóa Guðmundsdóttir, skrifstofumaður og Sigríður Magnúsdóttir, bóndi. Margar aðrar konur störfuðu þó mikið í áhugahópnum, má þar sérstaklega nefna Ragnheiði Hákonardóttur, Jósefínu Gísladóttur, Helga Dóru Kristjánsdóttir o.fl. en tengiliðir verkefnisins voru konur á öllum svæðum Vestfjarða og flestum þéttbýlisstöðum. Átaksverkefnið sem sem fékk heitið Snerpa (sem er algengt heiti á forystukind) réði Elsu Guðmundsdóttur, hagfræðing sem atvinnuráðgjafa kvenna. Meðal þeirra verkefna sem atvinnuráðgjafa var falið að vinna að var m.a. úttekt á atvinnumöguleikum kvenna á Vestfjörðum, og safna upplýsingum um fyrirtæki í eigu kvenna, að efna til umræðu um atvinnumál kvenna í einstökum byggðarlögum, að veita ráðgjöf til kvenna sem hyggðu á atvinnurekstur og nýsköpun í grónum fyrirtækjum m.a. á sviði fjármála, markaðs- og kynningarmála, útflutnings o.fl, standa fyrir fræðslu og námskeiðum um atvinnurekstur, aðstoða konur við framkvæmd verkefna sem tengdust atvinnusköpun og starfa með og sjá um samskipti við sveitarfélög og styrktaraðila verkefnisins vegna þeirra sem hyggðu á atvinnuuppbyggingu. Verkefnið stóð yfir í tvö ár frá vorinu 1993 –1995. Í júní 1995 var síðan haldin önnur ráðstefna um atvinnumál kvenna til að líta yfir farin veg og meta ávinninginn af átakinu. Niðurstaða þeirrar ráðstefnu var að halda þessu starfi áfram og freista þess að stofna Atvinnuþróunarfélag á svæðinu en í ályktun ráðstefnunnar sagði m.a: "Það er ljóst að með ráðstefnu þeirri sem áhugahópur um atvinnumál kvenna á Vestfjörðum hélt hausið 1991 var markað spor í atvinnusögu Vestfjarða. Að þeirri ráðstefnu lokinni var hafist handa um að koma af stað átaksverkefni til að örva konur til þátttöku í atvinnulífinu. Með stuðningi margra aðila tókst að koma því af stað og var ráðinn verkefnastjóri til tveggja ára. Það starf hefur skilað umtalsverðum árangri og vísast þar til skýrslu verkefnastjóra. Markmiðið sem sett var fyrir fjórum árum hafa því náðst og eru konur því nú á tímamótum og þurfa að setja sér ný markmið."

Þá var það niðurstaða ráðstefnunnar að tímabært væri að konur á Vestfjörðum beittu sér fyrir áframhaldandi nýsköpun í atvinnulífinu sem höfðaði bæði til kvenna og karla og vildi áhugahópurinn um atvinnumál kvenna á Vestfjörðum að næsta skref yrði að kanna möguleika á að starfrækja virkt atvinnuþróunarfélag á svæðinu sem hefði það markmið að efla atvinnulífið með sérstakri áherslu á handverk, smáiðnað og þjónustu, jafnframt því að kanna möguleika á þörf fyrir stofnun atvinnuþróunarsjóðs sem láni fé til slíkra verkefna. Var verkefnahópnum falið að reyna að vinna að þessu verkefni. Í kjölfar þessa stofnuðu þær Magdalena Sigurðardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Sigurborg Þorkelsdóttir, Anna Lóa Guðmundsdóttir, Ingibjörg Sigfúsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir sjálfseignarstofnunina AT-konur sem hafði þann tilgang að stofna Atvinnuþróunarfélag og stuðla að því að efla konur og hvetja þær til atvinnusköpunar. Þessi hópur sá um að afla hlutafjár meðal fyrirtækja og einstaklinga og annast allan undirbúning stofnunar Atvinnuþróunarfélags á Vestfjörðum. Öll sú vinna var ólaunuð og einungis unnin af einskærum áhuga kvennanna fyrir eflingu byggðar á Vestfjörðum. Stofnfundur Atvinnuþróunarfélags á Vestfjörðum var síðan haldinn í desember 1996 og tók félagið til starfa strax árið eftir 1997. Stærstu eignaraðilar félagsins voru Byggðastofnun með 21,25% hlutafjár, Fjórðungssamband Vestfirðinga með 17,71 % og Atkonur, sjálfseignarstofnun með 15,94 %. Fyrirtæki og einstaklingar áttu um 45 % í félaginu og er eignaraðild breið því að á annað hundrað fyrirtæki og einstaklingar komu að stofnun félagins. At- konur eiga stjórnarmann og einn varamann í stjórn félagaina og hafa þær alla tíð síðan skipst á við að standa vaktinu í að efla atvinnulíf á Vestfjörðum og beina sjónum að atvinnusköpun kvenna.


Ísafjörður 20.október 2015
Guðrún Stella Gissurardóttir