| | |

Café Riis Hólmavík

Hafnarbraut 19. S:451-3567 

Heimasíða: www.caferiis.is

Í hjarta Hólmavíkur stendur Riis-húsið þar sem veitingastaðurinn Kaffi Riis hefur verið rekinn undanfarin ár. Húsið er það elsta í þorpinu, byggt árið 1897 og það er því sjálfgefið að þar sé boðið upp á þjóðlega rétti beint úr héraði; lambakjöt, lunda með bláberjasósu, rækjurétti, pönnusteikta bleikju og bláberjaostaköku í eftirmat. Langi gesti til að kynnast framandi eldamennsku má einnig finna á matseðlinum rétti sem sækja meðal annars innblástur frá Mexíkó, Ítalíu og Asíu. Það er því, svo við notumst við mestu klisju ferðabransans, eitthvað fyrir alla á Kaffi Riis.


Einarshús Bolungarvík

Hafnargötu 41. S:456-7901 

Heimasíða: www.einarshusid.is

Netfang: ragna@einarshusid.is

Bolungarvík hefur verið kynnt sem endastöð sem kemur á óvart. Það ætti þó ekki að koma neinum á óvart að þar er hægt að fá spriklandi ferskt sjávarfang eldað af vestfirskri alúð. Einarshús er staðsett við höfnina í Bolungarvík, fyrrum íbúðarhús mestu athafnamanna Bolungarvíkur, nú veitingahús sem sérhæfir sig í réttum úr sjávarfangi af svæðinu, nýstárlegum lambakjötsréttum og heimilislegum eftirréttum.


Gamla gistihúsið Ísafirði

Á Gamla gistihúsinu er morgunmaturinn mikilvægasta máltíð dagsins. Gestir hafa aðgang að eldunaraðstöðu allan sólarhringinn, en morgunmaturinn skipar samt alltaf heiðurssess.

Í bland við hefðbundinn morgunmat eins og morgunkorn, kaffi og súrmjólk er kostur úr héraði. Þannig er brauðið nýbakað úr Gamla Bakaríinu (og já, Ísfirðingar virðast ekki geta fundið upp frumlegri nöfn á fyrirtækin sín en gamla þetta og gamla hitt!) og sulturnar allar úr nálægum dölum og skriðum.

Spaðaásinn er þó án vafa þorsklifrin sem mælt er með að sett sé ofan á rúgbrauðssneið og pipar á hnífsoddi stráð yfir. Þetta er, svo notuð séu orð gestgjafans Ingu, „algjört sælgæti“.


Heydalur

Mjóifjörður, Ísafjarðardjúp. S:456-4824 

Heimasíða: www.heydalur.is

Netfang: heydalur@heydalur.is

Heydalur er ævintýradalur í öllum skilningi þess orðs. Í Heydal er hægt að róa kajak eða fara á hestbak, veiða silung í vötnum og ám, skoða fugla og plöntur. Áður en lagst er til hvílu í fjósinu (engar áhyggur; það er búið að gera það upp sem nokkur svefnherbergi með baði) er tilvalið að láta þreytuna líða úr sér í heitu náttúrulegu baðlauginni í dalnum.

Veitingastaðurinn er í gömlu hlöðunni. Á matseðlinum er fjölbreytt úrval góðgætis úr hráefni úr héraði. Víða um dalinn, bæði utan húss og innan, er grænmetisrækt. Ræktaðar eru margar tegundir af salati, krydd, gulrætur, blómkál, spergilkál og rabarbari. Þá eru á matseðlinum réttir úr bláberjum, einiberjum og sveppum úr dalnum.

Kjötið og fiskurinn er úr heimabyggð. Þannig er laxinn og silungurinn úr ánni sem liðast niður dalinn, fiskurinn kemur utanaf Ísafirði, lundinn úr Vigur og lambakjötið frá Strandalambi. Brauð er að stórum hluta heimabakað sem og allar kökur.


Hótel Djúpavík

Árneshreppi. S:451-4037 

Heimasíða: www.djupavik.com

Netfang: djupavik@djupavik.com

Í skjólgóðri vík á Ströndum lúrir Hótel Djúpavík í friðsælu og afskekktu umhverfi. Réttirnir sem eru í boði á hótelinu eru flestir eldaðir úr hráefni úr næsta nágrenni. Má þar nefna villijurtakryddað lambalæri frá bændum í sveitinni, sultur, skyr og ostakökur úr berjum tíndum við víkina, krækling sem er tíndur beint af bryggjustaurunum við hótelið og fisk úr firðinum.

Þeir gestir sem veiða sjálfir fisk í nágrenninu geta jafnvel fengið hann matreiddan ofan í sig af matreiðslumönnum hótelsins. Á Hótel Djúpavík geta gestir dvalið í góðri sátt við náttúruna; sérstök umhverfisstefna hefur verið mótuð á hótelinu þar sem lögð er áhersla á að taka ávalt tillit til náttúrunnar.


Hótel Flókalundur

Vatnsfirði. S:456-2011 

Heimasíða: www.flokalundur.is

Netfang: flokalundur@flokalundur.is

Þegar besta hráefnið fæst nánast við húshornið er eðlilegt að bjóða gestum og gangandi að smakka á því besta sem Vestfirðir hafa að bjóða. Í Flókalundi er hótel og veitingastaður þar sem lögð er sérstök áhersla á að bjóða upp á ferskan fisk úr nágrenninu og villibráð úr héraði. Svo má ekki gleyma því að í nágrenni Flókalundar er á haustin einkar mikil berjaspretta. Ef Hrafna-Flóki væri enn uppi myndi hann að öllum líkindum koma við á kunnuglegum slóðum, ganga upp á næsta fjall og skima eftir hafís, og smakka í lok dags þjóðlega matinn í Flókalundi.


Hótel Látrabjarg

Örlygshöfn. S: 456-1500 

Heimasíða: www.latrabjarg.com

Netfang: info@latrabjarg.com

Hótel með veitingastað sem leggur áherslu á vestfirskar sjávarafurðir.


Hótel Laugarhóll

Bjarnarfirði. S: 451-3380

Heimasíða: www.laugarholl.is

Netfang: laugarholl@laugarholl.is

Hótel Laugarhóll er heimilislegt sveitahótel á Ströndum. Á hótelinu er vinalegt kaffihús og veitingastaður þar sem áhersla er lögð á hráefni af svæðinu. Fiskurinn kemur ferskur frá Drangsnesi, lambakjötið kemur frá Strandalambi, berin koma úr nærliggjandi hlíðum, kartöflurnar eru heimaræktaðar og rabbabarinn er úr hótelgarðinum.

Hér er góð gistiaðstaða fyrir 32 gesti í 16 tveggja manna herbergjum, svefnpokapláss fyrir allt að 20 manns, og veitingastaður í notalegum borðsal.

Hótel Laugarhóll hentar einstaklega vel til funda- og ráðstefnuhalds eða annars konar samkomuhalds.  Við hótelið er ylvolg 25 metra sundlaug og náttúrulegur heitur pottur.


Hótel Núpur

Dýrafirði. S:456-8235 

Heimasíða: www.hotelnupur.is

Netfang: info@hotelnupur.is

Í gamla héraðsskólanum að Núpi í Dýrafirði er nú rekið huggulegt hótel og veitingastaður. Á veitingastaðnum er lögð sérstök áhersla á að matseðillinn endurspegli umhverfið og að flest sem í boði er, sé lagað úr dýrfirsku hráefni. Fiskurinn er veiddur í firðinum og hótelstjórinn velur sjálfur lambakjötið frá bæjum í nágrenninu. Þá er kæfa hússins að sjálfsögðu framleidd á staðnum og gómsætar sultur eru soðnar úr berjum tíndum í vestfirskum fjallshlíðum. Á Núpi geta nýjungagjarnir einnig fengið eitthvað fyrir sinn smekk, en hálf landsframleiðsla Íslands af kiðlingakjöti var keypt til veitingastaðarins síðasta haust.


Kaffi Norðurfjörður

Norðurfirði. S: 692-6096

Heimasíða: www.nordurfjordur.is

Netfang: kaffi@nordurfjordur.is

Kaffi Norðurfjörður er starfandi kaffi- og veitingahús í Norðurfirði, Árneshreppi. Kaffihúsið hefur verið starfrækt frá árinu 2008 yfir sumarmánuðina og er nú opinn frá júníbyrjun til ágústloka.  Megin áherslur Kaffi Norðurfjarðar eru matur og matargerð úr héraði og “fair trade” verslun við bændur. Lambakjöt er keypt beint frá bónda og fiskurinn úr Norðurfirði.  Kaffið er meira að segja keypt frá býli í Kólumbíu með aðeins einn millilið, Kaffismiðju Íslands.   Brauð, kökur og annað gómsæti er að sjálfsögðu bakað á staðunum ásamt því að kjötmeti og aðrir réttir eru ryddaðir m.a. með jurtum og grösum úr nærliggjandi umhverfi.  Svo er aldrei að vita nema búið sé að sulta frægu púrtvíns-rabbarbarasultuna sem þið getið svo tekið með ykkur heim, nú eða rekaviðarreykja nokkur lambalæri.


Malarkaffi Drangsnesi

Grundargötu 17. S:451-3238 

Heimasíða: www.malarhorn.is

Netfang: malarhorn@malarhorn.is

Á pallinum á Malarkaffi er útsýnið frábært yfir Steingrímsfjörðinn, yfir Grímsey og Húnaflóann. Burðarásinn í ferðaþjónustunni á Drangsnesi eru hjónin Ásbjörn og Valgerður, sem meðfram gistihúsarekstri og því að bjóða upp á bátsferðir út í Grímsey, bjóða gesti velkomna á Malarkaffi.

Fiskurinn er ferskur og veiddur af þorpsbúunum og lambakjötið frá Strandalambi. Áhugaverðust er þó grásleppan sem í boði er, nú eða signi fiskurinn sem borinn er fram með selspiki að hætti heimamanna. Selspikið, grásleppan og signi fiskurinn eru að sjálfsögðu framleidd á staðnum eftir gömlum hefðum og tilheyrandi list.


Við Pollinn Ísafirði

Silfurtorgi 2. S:456-3360 

Heimasíða: www.vidpollinn.is

Netfang: vidpollinn@vidpollinn.is

Strax í byrjun sumars fara Ísfirðingar að hlakka til að fá nýveiddan lundann úr eynni Vigur í Ísafjarðardjúpi. Veitingamennirnir Við Pollinn á Ísafirði eru að sjálfsögðu í þessum hópi, enda eru lundabringurnar með vinsælli réttum á matseðlinum. Þá hafa innlendir sem og erlendir ferðamenn dásamað ísfirska saltfiskinn, spenntir smakkað á hrefnukjötinu sem hefur verið borið fram hrátt og gert nýjum silungi góð skil. Vilji fólk gera einstaklega vel við sig er síðan hægt að láta fara með sig í þriggja rétta óvissuferð þar sem kokkarnir setja saman matseðil úr ferskasta hráefni dagsins.