| | |

Hvaða kröfur eru settar til stofnunar sláturhúsa

Eftirfarandi leiðbeiningar miðast við núverandi löggjöf og nýja löggjöf sem tekur væntanlega gildi eftir samþykkt Alþingis og 18 mánaða aðlögunartíma.

Slátrun í smáum stíl verður að fara að heilbrigðiskröfum löggjafarinnar nema með þeirri undantekningu sem felst í 5 gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum en þar segir: „Eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu.“ Samsvarandi ákvæði er að finna í nýju löggjöfinni.

Helstu atriði sem hyggja þarf að:

  • Tryggja þarf leyfi bygginga- og skipulagsnefnda sveitarfélagsins.
  • Tryggja þarf nægilegt vatn af neysluvatnsgæðum (vatnsveita er starfsleyfisskyld af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna).
  • Tryggja þarf fráveitu (heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna).
  • Tryggja þarf eyðingu sláturúrgangs og urðunarstað. Auknar kröfur verða frá 2009 en eftir það má ekki urða ómeðhöndlaðan sláturúrgang. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnun koma að leyfisveitingu.
  • Leggja þarf teikningar sláturhúss fyrir Matvælastofnun til umsagnar.
  • Byggja þarf sláturhúsið í samræmi við samþykktar teikningar.
  • Matvælastofnun tekur út og leggur til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að löggilda húsið.
  • Matvælastofnun gefur út sláturleyfi bundið við tegundir og dagslátrun.
  • Þegar slátrað er verður dýralæknir Matvælastofnunar ávallt að framkvæma skoðun á gripum sem lóga skal innan 24 stunda fyrir slátrun.
  • Þegar slátrað er í mjög smáum stíl þarf dýralæknir ekki að vera viðstaddur slátrun, en þarf að lokinni slátrun að skoða skrokka og öll líffæri, þar með talin meltingarfæri. Það verður að vera hægt að rekja saman líffæri og skrokka.

Kjötvinnsla í smáum stíl verður að fara að heilbrigðiskröfum löggjafarinnar varðandi vöru sem ætluð er á almennan markað. Heilbrigðismerki framleiðanda þarf að tryggja rekjanleika innan EES. Verkkunnátta við alla framleiðslu matvæla er nauðsynleg. Innra eftirlit þarf að vera starfrækt ásamt því að áhættugreining þarf að hafa
verið gerð. Þetta gildir einnig um framleiðslu í smáum stíl sem ætluð er á almennan markað.

Upplýsingar fengnar úr Bændablaðinu 21.okt. 2008