| | |

Við getum gert betur!

Einu mesta ferðasumri í manna minnum á Vestfjörðum er að ljúka. Vonir manna um mikinn straum íslenskra ferðamanna vestur rættust. Ferðaþjónar um alla Vestfirði eru ánægðir enda aukningin hjá þeim talin í tugum prósenta, Markaðsstofa Vestfjarða hefur fengið bréf frá ánægðum og þakklátum ferðamönnum og svo mætti lengi telja, enda standa langflest fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum sig vel í sínu starfi.

En, það eru ekki allir sáttir. Ótal sögur um klúður í þjónustu, vondan mat, lélegan aðbúnað og leiðinlegt viðmót heyrast líka og margar þeirra hafa borist undirrituðum. Þær eru sannarlega leiðinlegar, en við megum ekki horfa fram hjá þeim. Það er nauðsynlegt að kryfja þær og skoða hvað fór úrskeiðis.

Hvað klikkaði?

Það er óþolandi staðreynd, að eftir alla umræðuna í vetur og vor um að nú væru líkur á miklum straumi ferðamanna til Vestfjarða, sem síðan gekk eftir, þá voru allt of margir ferðaþjónar og fyrirtæki þeirra engan vegin tilbúnin í þá aukningu. Allt of margir virðast ekki hafa undirbúið sig neitt umfram hið hefðbundna og það er óásættanlegt þegar væntingarnar og umræðan var um þessa aukningu. Sú gagnrýni sem fram hefur komið í sumar snýst m.a. um eftirfarandi:

• Veitingastaðir ráða ekki við þá matseðla sem þeir kynna

• Matseldin tekur allt of langan tíma. Dæmi eru um að fólk hafi gengið út eftir að hafa beðið eftir hamborgara í 45 mínútur

• Afgreiðslufólk er ekki einbeitt, gleymir pöntunum og kann ekki á þau tæki og tól sem notuð eru í afgreiðslunni (rjómasprauta fyrir kakó, o.s.frv.)

• Gistiheimili staðfesta gistingu fyrir stóra hópa en hafa síðan aðeins aðbúnað fyrir litla. M.ö.o. það sem lofað er að sé í boði stenst ekki

• Aðbúnaður er víða fyrir neðan allar hellur, sérstaklega salerni og vatnssvæði. Hér ætti auðvitað að nefna dæmi um tjaldstæðaklúður Ísafjarðarbæjar, en þar sem bæjaryfirvöld hafa þegar gefið út tilkynningu um að tjaldstæðið verði stækkað og þjónustan efld, er óþarfi að eltast við það dæmi meira. Við reiknum þess í stað með algerum viðsnúningi þar

• Neikvætt viðmót gagnvart fólki frá höfuðborgarsvæðinu sbr: „þið fyrir sunnan“. Dæmi er um hranaleg svör sem hópur fékk í þorpi á N-Vestfjörðum, þegar spurt var um „hvar væri hægt að fá að borða“

• Niðurskurður á þjónustu Upplýsingamiðstöðvar Ísafjarðarbæjar (opnaði seint um helgar)

• Óþrifnaður fyrir utan skemmtistaði og á bílaplönum þar sem bílar stoppa á rúntinum. Í mörgum tilfellum eru hálffull bjórglös, glerbrot, öskjur utan af skyndimat o.s.frv. sjáanleg langt fram eftir degi. Hreinsun fer ekki lengur fram um helgar eins og áður, sökum niðurskurðar. Dæmi eru um að krakkar skeri sig á glerbrotum

• Verslanir og veitingahús lokuð um hátíðir, meðan allt er fult af ferðafólki. Fólk spyr: „vilja þessi fyrirtæki ekki selja? eru þau ekki í rekstri?“

• Lítið úrval af handverksmunum og margir spyrja aftur: „Vill fólk ekki selja munina sína?“

• Og fleira og fleira.

Búið er að opna þessa umræðu að hluta til í fjölmiðlum nú þegar og var það tímabært. Núna þarf hins vegar að að nýta þessa umræðu og læra af henni.

Klúðurlistinn er lengri en upptalningin hér að ofan og ég held að lesendur hafi áttað sig á því. Ég hef rætt við marga í sumar um þetta mál og mín niðurstaða er þessi:

Hjá allt of mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum skortir metnað og þekkingu til að veita þá þjónustu sem ferðamenn reikna með að fá og við teljum sjálf eðlilegt að fá þegar við ferðumst. Við skulum líka hafa í huga að Vestfirðir hafa verið kynntir og auglýstir vel og rækilega í sumar og slíkar auglýsingar skapa væntingar meðal okkar viðskiptavina. Við eigum og verðum að standa undir þeim væntingum!

Hvað er hægt að gera?

Skort á metnaði er erfitt að laga, þar sem hann er persónubundinn. Ég vil hins vegar ganga svo langt að segja, að það verður að gera strangari kröfur til rekstraraðila um fagþekkingu, þjónustustig, hreinlæti og fallega umgjörð. Gangi það ekki, verða slíkir rekstraraðilar að víkja og aðrir með meiri metnað og betri viðskiptahugmynd að fá sitt tækifæri.

Skort á þekkingu er hins vegar hægt að laga og þar er raunar ýmislegt í boði á hverju ári. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð, Útflutningsráð, Markaðsstofa Vestfjarða, Ferðamálasamtök Vestfjarða og Atvest o.fl. hafa boðið námskeið og/eða aðra fræðslu til ferðaþjóna og fyrirtækja á hverju ári. Því miður eru þessi námskeið illa sótt, hverju svo sem þar er um að kenna. Ég er þeirrar skoðunar að hefðbundið form fyrir þessi námskeið, þar sem fólk mætir á einn stað í einhverja klukkutíma, dugi ekki. Ég tel vænlegra að þessi námskeið fari fram inni á vinnustöðum og í því umhverfi sem ferðaþjónar starfa. Sú leið verður nú skoðuð.

Af hverju er ég að skrifa um þetta?

Tilefni þessarar greinar er ekki að hefja nornaveiðar eða að ásaka einstaklinga. Þeir sem gerðu mistök í sumar og þurftu að afsaka sig ítrekað eða endurgreiða vegna lélegrar þjónustu, vita vel að þeir „klikkuðu“.

Tilgangurinn með þessum skrifum er tvíþættur:

1. Að benda á þá staðreynd að þjónustustig, söluþekkingu og almenna framkomu í ferðaþjónustu á Vestfjörðum verður að endurskoða! Við verðum að gera betur. Vestfirðir hafa verið í sókn sl. ár og var t.d. aukning gistinátta mest hér á Vestfjörðum milli 2007 og 2008 á landinu, eða 18%. Ætlum við að glutra þessu niður með lélegri þjónustu, skorti á metnaði og þekkingu? Margir þeirra sem komu hingað í sumar koma ekki aftur, í besta falli ekki í bráð.

2. Finna lausn á vandanum. Boða til samstarfs með ferðaþjónum, hagsmunaaðilum og sveitarstjórnarfólki þar sem markmiðið er EKKI að finna út hverjir klikkuðu heldur hvað klikkaði, þannig að við getum mætt því með viðeigandi úrræðum.

Þeir fundir sem boðað verður til eru hluti af aðgerðaráætlun sem Atvest, Markaðsstofa Vestfjarða og Ferðamálasamtök Vestfjarða munu vinna saman að í vetur.  Þetta verkefni miðar að því að móta stefnu fyrir greinina, greina styrkleika og veikleika, meta það sem þarf að lagfæra, þróa lausnir og kynna í vor nýjar áherslur í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Við munum kalla til þessarar vinnu einstaklinga og fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðru atvinnulífi, sveitastjórnarfólk og fulltrúa stoðkerfisins. Við verðum að gera betur og við getum gert betur. Þeir sem ekki deila þeirri trú minni, verða þá alla vega að hætta að kvarta yfir ferðaþjónustu á Vestfjörðum, því hún verður aldrei betri en þeir sem standa þar í forsvari.

Með bestu kveðju,

Atvinnuþróunarfélag Vestfjaðra
Þorgeir Pálsson