| | |

Ertu með markmið?

Árangur íslenska landsliðsins í handbolta á Ólympíuleikunum 2008 byggðist á mörgum samverkendi þáttum eins og einbeittum þjálfara og aðstoðarfólki hans, sterkum leiðtoga og góðum liðsanda leikmanna ... en ekki síður; skýrri markmiðasetningu! Liðið setti sér háleit markmið, fór ekki hátt með þau, en vann þess í stað enn markvissar og ákveðnar að því að ná þeim. Silfrið var þannig séð sigur hugans og þess að stefna hátt.

Það eru engin ný sannindi, að skýr, mælanleg og raunhæf markmið leiða til markvissari vinnubragða . Markmiðasetning er líka forsenda árangursmælinga og þess að meta þróun í rekstri og afkomu. Nú, sem aldrei fyrr, þurfa íslensk fyrirtki að tileinka sér markmiðasetningu og innleiðingu viðeigandi aðgerða, ætli þau sér að lifa af þær hremmingar sem nú bætast við hefðbundna samkeppni.

Dæmi um markmið sem fyrirtæki gætu sett sér eru: bætt afkoma, hagkvæmari rekstur, lægri rekstrarkostnað, auknar tekjur, færri framleiðslugalla, fleiri nýja viðskiptavini, aukna markaðshlutdeild, samruna fyrirtækja, aukið samstarf, vöruþróun, sókn á nýja markaði, endurmenntun starfsmanna o.s.frv. Aðalatriðið er þó að markmiðin séu raunhæf miðað við getu, fjárhag og almenna stöðu viðkomandi fyrirtækis og að markmiðin séu í takt við stefnu fyrirtæksins.

Atvest hvetur fyrirtæki á Vestfjörðum til að láta árið 2009 verða það ár þar sem markmiðasetning og mat á árangri varð sjálfsagður og reglulegur þáttur í rekstri þeirra. Við erum tilbúin til að aðstoða stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja við að móta, orða og skilgeina raunhæf, tímasett og mælanleg markmið. Byrjum núna!

Þorgeir Pálsson framkvæmdarstjóri Atvest