| | |

Upplýsingar tengdar fyrirtækjarekstri

Atvinnuþróunarfélög á hverju landssvæði sinna nærþjónustu við aðila í atvinnurekstri. 

Atvinnuráðgjafar aðstoða við mótun hugmyndarinnar, leiðbeina við það að gera hana sem arðvænlegasta og aðstoða við gerð viðskiptaáætlana og umsókna um fjármagn. Jafnframt aðstoða þeir við upplýsingaleit og leit að sérfræðiaðstoð, sé hún nauðsynleg. 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands ( Impra) er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. www.impra.is

Á vef Ríkisskattstjóra er mikið af upplýsingum um rekstrarumhverfi, bókhald og skattamál, öll helstu lög og reglugerðir sem snerta rekstur fyrirtækja og upplýsingar uppfærðar fljótt og vel, ef breytingar verða á rekstrarumhverfi. Ríkisskattstjóri býður upp á námskeið um skattaumhverfi fyrirtækja sem er sérlega gagnlegt vegarnesti í upphafi atvinnurekstrar.www.rsk.is

Samtök atvinnulífsins hafa einnig á sínum snærum upplýsingar um ýmislegt varðandi rekstur og rekstrarumhverfi. www.sa.is

Hyggi fyrirtæki á útflutning má benda á Útflutningsráð, en þar er í boði fræðsla og ráðgjöf á því sviði. Jafnframt eru þar upplýsingar um vörusýningar, viðskiptasendinefndir og erlenda gagnagrunna sem tengjast viðskiptum við útlönd.  Á vegum Útflutningsráðs eru oft rekin tímabundin átaksverkefni á sérhæfðum sviðum útflutnings. www.icetrade.is  . Nýsköpunarsjóður hefur einnig tekið þátt í útrás hugmynda. 

Allar helstu upplýsingar um inn- og útflutning vöru er hins vegar að finna hjá Tollstjóraembættinu, en það hefur vefsíðuna  www.tollur.is   Þar er að finna allar helstu reglur um tollamál, tollaflokkun og tollskýrslugerð.

Einkaleyfastofa aðstoðar við útvegun einkaleyfis, hönnunarverndar og vörumerkja, hér á landi sem á alþjóða vettvangi. www.els.stjr.is

Hollustuvernd ríkisins og Heilbrigðiseftirlit á hverju landsvæði geta gefið upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til rekstrar í hinum ólíku atvinnugreinum. Þá er átt við kröfur hvað varðar mengunarvarnarbúnað og hreinlætisaðstöðu m.a.. www.ust.is Sækja þarf um úttekt og umsögn heilbrigðisfulltrúa þegar opnaðir eru veitingastaðir sem og gististaðir til að fá leyfi fyrir starfsemina. 

Ferðamálastofa  hefur góðan alhliða upplýsingavef sem inniheldur geysilegt magn upplýsinga varðandi rekstrarumhverfi ferðamála á Íslandi, s.s. fjöldatölur, gistinýtingu, styrkjamöguleika, kynningarleiðir, lagaumhverfi ofl..www.ferdamalastofa.is  Gæðakerfi Ferðaþjónustunnar má kynna sér á www.vakinn.is 

Markmið FKA (Félags kvenna í atvinnurekstri) er að gæta hagsmuna og efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnurekstri. Félagið er opið öllum þeim konum sem eiga og reka fyrirtæki, einar eða með öðrum.www.fka.is

Heimasíða Bændasamtakanna hefur að geyma gríðarlegt magn upplýsinga og fróðleiks sem tengist landbúnaði, bæði hefðbundnum greinum og nýjum. Þar er meðal annars að finna greinar, ýmsar rannsóknarniðurstöður, upplýsingar um nám og námskeið og mjög viðamikið tenglasafn á ýmsar síður. www.landbunadur.is  www.bondi.is

Handverk og hönnun  eru samtök handverksfólks og hönnuða. Þau standa fyrir sýningum víðs vegar um land styðja handverksfólk og þeirra fyrirtæki við að koma sér á framfæri og byggja upp ímynd og þekkingu handverksfólks á Íslandi. www.handverkoghonnun.is

Fræðslumiðstöð Vestfjarða - www.frmst.is  og fræðslumiðstöðvar um allt land veita fólki á hverju starfssvæði aðgang að námskeiðum sem gagnast geta til uppbyggingar á þekkingu sem nýtist í fyrirtækjarekstri.

Upplýsingar um fjármögnun viðskiptahugmynda
Konur með viðskiptahugmyndir geta leitað til neðangreindra aðila um fjármögnun viðskiptahugmynda. Þó skal á það bent að undirbúningur fjármögnunar er talsverður og heppilegt að fá atvinnuráðgjafa til aðstoðar. 

Vinnumálastofnun stendur fyrir styrkjum til atvinnumála kvenna (oft kallaður kvennasjóður eða Jóhönnusjóður) sem einkum er ætlað að auka fjölbreytni í atvinnulífi, viðhalda byggð um landið og efla atvinnutækifæri á landsbyggðinni, auðvelda aðgang kvenna að fjármagni og að draga úr atvinnuleysi meðal kvenna.www.vinnumalastofnun.is

Einnig er þar staðsettur Lánatryggingasjóður kvenna Svanni. Meginmarkmið hans er að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir fyrir allt að helmingi lána sem þær taka hjá lánastofnun til að fjármagna tiltekið verkefni. Ábyrgðin er veitt á grundvelli mats á arðsemi viðskiptahugmyndarinnar.

Impra/NMÍ býður upp á fjárhagslegan stuðning við ýmis verkefni tengd atvinnurekstri. Þar á meðal frumkvöðlastuðning og styrki til vöruþróunar. Verkefnin eru ýtarlega skilgreind á heimasíðu stofnunarinnar www.nmi.is 

Átak til atvinnusköpunar er er hýst hjá Impru. Úr honum er úthlutað til verkefna sem eru á forstigi nýsköpunar og falla ekki undir verksvið annarra sem veita sambærilega fyrirgreiðslu. Jafnframt verkefna sem eru skilgreind sem sérstök átaksverkefni ráðuneytisins og ætlað er að hafa víðtæk áhrif en eru ekki bundin við afmarkað verk, einstakling eða fyrirtæki. www.impra.is

Hjá Byggðastofnun er hægt að sækja bæði um lán og styrki til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Veitir hún styrki til margs konar nýjunga í atvinnulífi landsbyggðarinnar og lán vegna fjárfestinga þar. Skilyrði fyrir lánum á vegum stofnunarinnar eru veð í atvinnuhúsnæði. Hlutverk stofnunarinnar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Á heimasíðu hennar er að finna gott yfirlit og vísanir á vefsíður bæði innlendra og norrænna sjóða sem veita fjármagni til atvinnuþróunar. www.byggdastofnun.is  Nefna má að veitt eru sérstök kvennalán til einnar viðskiptahugmyndar sem konur á landsbyggðinni stofna til. 

Smáverkefnasjóður landbúnaðarins er deild í Framleiðnisjóði landbúnaðarins en báðir sjóðirnir veita styrki til margháttaðra atvinnutengdra verkefna í dreifbýli, skal umsækjandi vera með lögheimili á lögbýli. www.fl.is

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins veitir styrki til frumkvöðla í samstarfi við Impru til afmarkaðra verkefna, en tekur einnig þátt í fjármögnun fyrirtækja sem eru í algerri nýsköpun í framleiðslu sinni. Um tvenns konar fjármögnun er að ræða, áhættulán og hlutafé en enga styrki. www.nsa.is Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins styður einkum við fyrirtæki sem komin eru vel á veg en vilja auka hlutafé og stækka starfsemina. 

Á síðari tímum hefur Rannís tekið við viðskiptahugmyndum á byrjunarstigum og veitir fé úr rannsóknasjóði, tæknisjóði, og stuðning við sprotafyrirtæki og þá sem eru komnir af stað. Þessir sjóðir eru aðengilegir í gegnum vefgáttina eins og sýnt er hér: https://www.rannis.is/sjodir/umsoknarkerfi 

Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir fyrirtæki til að ráða til sín námsmenn tímabundið til afmarkaðra verkefa á ýmsum sérsviðum, s.s. á sviði vöruþróunar.www.nsn.is

Hlutverk Samstarfsvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar er að: Leiða saman fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði í þeim tilgangi að efla þróun á tækjabúnaði sem eykur vinnsluvirði í útgerð og fiskvinnslu ásamt því að veita fyrirtækjum faglega og fjárhagslega aðstoð við þróunarstarfið og opna þeim réttar dyr á réttum tíma.www.vettvangur.is

Ferðamálastofa hefur á vef sínum ýtarlegar upplýsingar um þá fjárhagslegu fyrirgreiðslu sem býðst aðilum í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja.www.ferdamalastofa.is

Aukið verðmæti sjávarafurða, AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi starfar á vegum Sjávarútvegsráðuneytisins. AVS rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum. www.avs.is

Eignarhaldsfélagið Hvetjandi er í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á norðanverðum Vestfjörðum og Byggðastofnunar. Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að ávaxta hlutafé með þátttöku í nýsköpun og uppbyggingu atvinnutækifæra á norðanverðum Vestfjörðum.  Heimasíða Hvetjanda

Að auki eru til nýsköpunarsjóðir hjá bönkum og stórum fyrirtækjum. 

Vefslóðir allra sjóða eru hér á síðu ATVEST undir STYRKIR