| | |

Óskað eftir umsóknum í nýjan Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

Nú hefur verið stofnaður nýr Uppbyggingarsjóður Vestfjarða sem rekinn er innan vébanda Sóknaráætlunar landshlutans og er í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann tekur við hlutverki Menningarráðs Vestfjarða og Vaxtarsamnings Vestfjarða og veitir styrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar- og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015. Í vor verður í fyrsta skipti úthlutað úr sjóðnum og er umsóknarfrestur til og með 30. apríl. Til ráðstöfunar í úthlutun eru um það bil 60 milljónir að þessu sinni, sem er svipuð upphæð og úthlutað var á grundvelli menningar- og vaxtarsamninga á síðasta ári.

 

Veittir verða stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, verkefnastyrkir til menningarmála og verkefnastyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Nýbreytni er að hægt er að sækja um stærri styrki til lengri tíma en áður, allt að þremur árum. Skila verður umsóknum á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem er að finna ásamt frekari upplýsingum og úthlutunarrreglum hér á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga – www.vestfirdir.is/Uppbyggingarsjodur.

 

Samþykkt hefur verið að árið 2015 verði litið sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

 

a)  Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja sem byggja á nýsköpun, einnig vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
b)  Verkefni sem stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og aukinni fagmennsku í menningarstarfi
c)  Verkefni sem fjölga eða styðja við atvinnutækifæri á sviði lista og menningar
d)  Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu
e)  Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
f)  Verkefni sem skapa viðskiptatækifæri og verðmæti á sviði skapandi greina
g)  Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur eða stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir ungt fólk á svæðinu
h)  Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem auka útflutningstekjur eða eru gjaldeyrisskapandi
i)   Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á sviði líftækni
j)   Verkefni sem byggja á samstarfi fyrirtækja og rannsóknaraðila, þ.m.t. háskólastofnana

 

Hægt er að hafa samband og senda umsóknir rafrænt á netfangið uppbygging@vestfirdir.is. Starfsmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga veita ráðgjöf við gerð umsókna í Uppbyggingarsjóð og sama gildir um starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Niðurstaða fundar með forstöðumönnum opinberra stofnana í Reykjavík þann 4. desember 2014

Boðað var til fundar með forstöðumönnum opinberra stofnana í Reykjavík þann 4. desember 2014 á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn var hluti af verkefni um markaðssetningu Vestfjarða með stuðningi Sóknaráætlunar landshluta.

Hægt er að nálgast skýrslu um niðurstöðu fundarins á vef Sóknaráætlunar Vestfjarða um greiningar á Vestfjörðum. Einnig er hægt skoða skýrsluna með því að klikka á myndina hér fyrir neðan.

 

Tilgangurinn var að ræða eflingu opinberra stofnana á Vestfjörðum. Fundurinn var hugsaður sem samskiptavettvangur þar sem þátttakendum var gefinn kostur á að koma skoðunum sínum um eftirfarandi atriði á framfæri á vinnuborðum:


1. Hvernig má efla starfsemi opinberra stofnana á Vestfjörðum?
2. Hvaða þröskulda þarf að yfirstíga?
3. Hvernig á að markaðssetja Vestfirði gagnvart opinberum stofnunum?

Umræðurnar snerust ekki um einstaka stofnun eða fyrirfram ákveðna tilfærslu opinberrar starfsemi. Fundurinn var umfram allt haldinn á jákvæðum nótum þar sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga lögðu áherslu á faglega umræðu um málefnið.

Átak til Atvinnusköpunar - umsóknarfrestur er 25.febrúar

Auglýsing frá NMÍ vegna Átak til Atvinnusköpunar 2015
Auglýsing frá NMÍ vegna Átak til Atvinnusköpunar 2015

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr verkefninu Átaki til atvinnusköpunar. Veittir eru styrkir til nýsköpunarverkefna og markaðsaðgerða frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja.

Markmið verkefnisins

  •        Að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta.
  •        Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða frumkvöðla og fyrirtækja.

Sérstök áhersla er lögð á

  •        Verkefni sem skapa ný störf
  •        Nýsköpun og/eða samstarfsverkefni sem byggir á hönnun
  •        Nýsköpun sem á sér stað í klasasamstarfi
  •        Verkefni sem eru að stíga fyrstu skref á alþjóðamarkaði

Styrkur getur að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis. Ekki eru veittir styrkir til fjárfestinga s.s. í tækjum og búnaði.

Frekari upplýsingar og rafræn umsóknarform eru á www.nmi.is

Beiðni um upplýsingar og aðstoð má senda á netfangið hildur@nmi.is sem og til undirritaðrar.

Úthlutun úr Vaxtasamning Vestfjarða - 22 verkefni hlutu styrk

Vaxtarsamningur Vestfjarða, sem er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða 2014, hefur boðið 22 verkefnum styrk fyrir samtals 24 m.kr.

 

Úthlutunarstjórnin var ánægð með fjölda, fjölbreytileika og gæði þeirra umsókna sem bárust Vaxvest en í heildina vorum rúmlega 35 verkefni sem höfðu samband við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem heldur utan um starfsemi Vaxtarsamnings Vestfjarða.

 

Vegna mikils fjölda áhugaverðra verkefna var í mörgum tilfellum ekki unnt að veita umbeðnar upphæðir og því þurfa öll verkefnin að aðlaga sig að veittum styrkjum. Í sumum tilfellum voru styrkir skilyrtir við ákveðna verkþætti innan verkefnisins.

 

Bundnar eru vonir við að ofangreind verkefni muni skapa langvarandi verðmæti fyrir Vestfirði og komi til með að auka fjölbreytileika og styrkleika atvinnulífs svæðisins.

 

Vaxtarsamningur Vestfjarða er samstarfsverkefni Iðnaðarráðuneytisins og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Unnið er samkvæmt kenningum um fyrirtækjaklasa með samvinnu fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga um eflingu atvinnulífs og bætt umhverfi fyrir atvinnustarfsemi. Lögð er áhersla á þær atvinnugreinar sem eru nú þegar sterkar á Vestfjörðum og styðja þær enn frekar til að takast á við alþjóðlega samkeppni.

 

Verkefni sem hlutu styrk í þessari úthlutun eru sem hér segir:

 

Arctract - framleiðsla á virðisaukandi afurðum úr sjávarfangi

Skrásetning auðlinda ferðaþjónustu Vestfjarða

Rorum – sjálfbær nýting á þangi í Ísafjarðardjúpi

Markaðssetning á hágæða fiskiolíu

Náttúrubarnaskóli

Steinbítshausar –vöruþóun

Ofurkæling afla á smábátum

Umhverfisáhrif sjávarútvegsfyrirtækja.

Strandaber - framleiðsla á ofurfæðu úr bláberjum

Truefresh – ný hraðfrystitækni.

Norður Garum – framleiðsla á fiskikrafti/fiskisósu með gamalli aðferð.

Heilsulind Sjávarböð – efnagreiningar.

Markaðsþróun fyrir steinbít með áherslu á asíumarkaði.

Bætt nýting hliðarafurða í sjávarútvegi m.t.t. sérhæfðra markaða

Vöruþróun í ferðaþjónustu – Stiklusteinn

Menningar- og sögulegur arfur Vestfjarða: Hollendingar við Tálknafjörð og Björgunarafrekið við Látrabjarg - vöruþróun í ferðaþjónustu á Sunnanverðum Vestfjörðum

Steinshús – vöruþróun á safni um Stein Steinarr.

Markaðsþróun fyrir heilsuvörur úr hafinu.

Náttúrufjörðurinn Önundarfjörður – vöruþróun í ferðaþjónustu

GKP longline system – vöruþróun í vinnslulausnum fyrir línuskip.

Baskavinafélagið og Sánverjavígin – vöruþróun í sögutengdri ferðaþjónustu.

Breiðarfjarðarátakið – markaðssetningarverkefni fyrir ferðaþjónustuklasa

 

 

Nánari upplýsingar um verkefnin og vaxtasamning Vestfjarða er hægt að fá hjá framkvæmdastjóri AtVest, Shiran Þórisson í s.450 3000 og shiran@atvest.is

 

 

Auglýst eftir umsóknum í Vaxtasamning Vestfjarða

Fjármagn í þróunarverkefni – Vaxtarsamningur Vestfjarða 2014

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða auglýsir eftir nýsköpunarverkefnum og verkefnum sem auka samkeppnishæfni atvinnulífsins á Vestfjörðum.

Stutt verður eftirfaraandi tegund verkefna:
1. Verkefni sem fela í sér samstarf fyrirtækja og rannsóknaraðila þ.m.t. háskólastofnana.
2. Stofnun nýrra fyrirtækja sem byggja á nýsköpun. Með nýsköpun er átt við nýjar vörur, nýtt þjónustuframboð fyrir vel skilgreinda markaði eða endurbætur á framleiðslu- og þjónustuferlum. Gætt verður sérstaklega að samkeppnissjónarmiðum og ekki verður stutt við verkefni sem eru í svæðisbundinni samkeppni.
3. Vöruþróun starfarfandi fyrirtækja sem byggja á samstarfi eins og lýst er í lið 1.

Við forgangsröðun og mat verkefna verður horft til eftirfarandi áherslna og að verkefnin takið mið af einu eða fleirum af neðangreindum þáttum;

1. Auka útflutningstekjur eða eru gjaldeyrisskapandi.
2. Eru á sviði líftækni.
3. Skapa viðskiptatækifæri og verðmæti á sviði skapandi greina .
4. Skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur.
5. Styðji við samkeppnishæfni sjávarútvegs
6. Byggi upp afþreyingarfyrirtæki sem hafi tilvísun í menningararf og menningu svæðisins.

Nánari upplýsingar og ráðgjöf varðandi uppsetningu verkefna veita starfsmenn Atvest á starfsstöðvum félagsins á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði. Umsóknarfrestur er til og með 21. Nóvember og óskast sent rafrænt á umsokn@atvest.is.


Nánari upplýsingar eru á heimasíðu VaxVest.

Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða fyrir árið 2014.

Eldsmiðjan, sex ólíkar tónlistarkonur á Patreksfirði.

Þriðjudaginn 23. september leggja sex ólíkar tónlistarkonur upp í langferð. Förinni er heitið til Patreksfjarðar en þar ætla konurnar að vinna í pörum að því að skapa nýja tónlist. Stelpurnar sem um ræðir eru þær Íris Hrund, Rósa Guðrún, Soffia Björg, Sunna Gunnlaugs, Una Stef og Þóra Gísladóttir.

Verkefnið ber heitið Eldsmiðjan og stendur félag kvenna í tónlist, KÍTÓN, fyrir smiðjunni.

Í lok vikunnar munu tónlistarkonurnar síðan halda tónleika í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði þar sem tvær og tvær koma fram á hverjum tónleikum.

Fyrstu tónleikarnir verða á föstudagskvöldinu 26. september og hefjast þeir klukkan 21 en það eru þær Soffía Björg og Sunna sem ríða á vaðið.

Á laugardagskvöld er veislunni haldið áfram. Tónleikar þetta kvöld hefjast einnig klukkan 21 og munu þær Rósa Guðrún og Una Stef troða upp það kvöld.

Botninn verður svo sleginn í Eldsmiðjuna á sunnudeginum en þá koma þær Íris Hrund og Þóra fram á síðustu tónleikum Eldsmiðjunnar 2014. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.