| | |

Ert þú frumkvöðlakona?

Ert þú frumkvöðlakona?

Vinnumálastofnun stýrir Evrópuverkefninu FREE  - Female Rural Enterprise Empowerment en verkefnið hefur fengið 40 milljónir í styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Samstarfsaðilar í verkefninu eru sjö talsins og koma frá Bretlandi, Króatíu, Búlgaríu og Litháen en auk Vinnumálastofnunar á Íslandi tekur Byggðastofnun þátt í verkefninu.

FREE verkefnið hefur það markmið að efla hæfni frumkvöðlakvenna á landsbyggðinni.

Boðið verður upp á fræðslu í viðskiptatengdum þáttum í fjarkennslu, en einnig verður lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni með því að bjóða upp á þátttöku í þjálfunarhringjum (Enterprise circles). Nýjar leiðir verða nýttar til að ná til þátttakenda sem búa í dreifbýli til að tryggja aðgengi þeirra að fræðslu og tengslaneti en það er einnig hlutverk verkefnisins að þróa tengslanet sem konur geta nýtt sér til stuðnings og lært af. Fyrsti verkþáttur FREE verkefnisins er að leita til kvenna til að taka þátt í rýnihópaumræðum um stöðu frumkvöðlakvenna á landsbyggðinni. Með þessari aðferð verður til ný þekking sem getur varpað skýrari ljósi á aðstæður frumkvöðlakvenna í viðkomandi löndum.

Nú leitum við að konum á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi til að taka þátt í umræðum sem mun fara fram um miðjan janúar næstkomandi.

Leitað er eftir konum sem eru:

  • eigendur að nýstofnuðu fyrirtæki eða
  • með viðskiptahugmynd sem þær vilja koma í framkvæmd

Markmiðið er að safna upplýsingum um stöðu og þarfir frumkvöðlakvenna og þróa nýjar leiðir til þess að efla enn frekar atvinnusköpun sem getur styrkt efnahagslega og félagslega stöðu kvenna á dreifbýlum svæðum. Umræður í hópunum mun fara fram á íslensku.

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í að móta nýjar hugmyndir með okkur þá vinsamlegast sendu tölvupóst með eftirfarandi upplýsingum fyrir 6.janúar nk.

 

Nafn fyrirtækis/viðskiptahugmyndar:

Nafn umsækjanda:

Símanúmer /GSM

Heimili:

Kennitala:

Netfang:

Stutt lýsing á starfsemi eða lýsing á viðskiptahugmynd.

 

 

Ef fyrirtæki hefur verið stofnað hve lengi  hefur það verið í rekstri?

 

Vefsíða fyrirtækis – slóð (ef hún er til)

Hvers vegna hefur þú áhuga á þátttöku?

 

 

 

 

Íslandsstofa boðar til fundar á Ísafirði með framleiðendum og útflytjendum matvæla

Íslandsstofa boðar til fundar á Ísafirði með framleiðendum og útflytjendum matvæla og öðrum þeim sem áhuga hafa á málefninu fimmtudaginn 12. nóvember kl. 10:30-12:00 Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði.

Á fundinum verða kynntar niðurstöður kortlagningar matvælageirans sem Íslandsstofa lét gera í samstarfi við hagsmunafélög í framleiðslu matvæla og rætt um matvælaframleiðslu á Vestfjörðum. Kortlagningin fólst í spurningakönnun sem Gallup lagði fyrir matvælafyrirtækin í landinu og viðtölum við útflytjendur og hagsmunaaðila.

Fulltrúar matvælaframleiðenda á Vestfjörðum eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í umræðum um tækifæri og framtíðarsýn fyrir sitt svæði og hvernig Íslandsstofa getur sem best stutt við matvælaframleiðendur og útflytjendur matvæla á Vestfjörðum.

Nánari upplýsingar um fundinn veita:
Bryndís Eiríksdóttir, bryndis@islandsstofa.is og
Áslaug Þ. Guðjónsdóttir, aslaug@islandsstofa.is, verkefnisstjórar á matvælasviði, í síma 511 4000.

Fundurinn er öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirfram á vef Íslandsstofu.

Nýr starfsmaður AtVest á Ströndum og Reykhólum

María Hildur Maack hefur hafið störf að hluta fyrir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Hún mun hafa aðsetur á hreppsskrifstofu á Reykhólum á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum (8-16, frá og með 1. september) en að jafnaði á Hólmavík á mánu- og miðvikudögum (9-17 frá sama tíma).  Hægt er að hafa samband við Maríu nú þegar um verkefni í gegnum mmaaria@atvest.is . María hleypur í skarðið fyrir verkefnisstjóra félagsins hana  Viktoríu, sem stefnir á frekara nám.

María hefur starfað við rannsóknir, verkefnastjórnun og almannatengsl fyrir Íslenska NýOrku. Einnig á hún að baki langa sögu í þróunarverkefnum í ferðaþjónustu og umhverfismálum. María hefur MS próf í umhverfisstjórnun frá IIIEE í Lundarháskóla og BSc í líffræði frá Háskóla Íslands og í Gautaborg með áherslu á sjávarvistfræði. Að auki er hún að leggja lokahönd á doktorsverkefni í visthagfræði um heildaráhrif þess að nota rafmagn og vetni í íslenskum landsamgöngum í stað olíu. María hefur reynslu af verkefnastjórnun bæði í alþjóðlegum samskiptum og á Íslandi. Hún hefur kennt á öllum skólastigum og verið leiðsögumaður um Ísland á sumrum, enda mikil tungumálamanneskja. Hún býr nú á Reykhólum.

Vinnustofur um styrkumsóknir í Uppbyggingarsjóð


Nú styttist í að umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða renni út, en hægt er að sækja um styrki til og með mánudeginum 11. maí næstkomandi. Mikilvægt er að undirbúa umsóknir vel til að árangur náist. Af þessu tilefni verða nú haldnar vinnustofur um styrkumsóknir í Uppbyggingarsjóð á þremur stöðum á Vestfjörðum - í þróunarsetrunum á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík. Þar geta menn komið á ákveðnum tíma og sest niður um stund til að vinna í sínum umsóknum og fengið leiðbeiningar og svör við spurningum frá starfsfólki Fjórðungssambands Vestfirðinga og AtVest.
 
Vinnustofurnar verða á þessum tímum:  
 
Þróunarsetrið á Patreksfirði:
Miðvikudaginn 6. maí kl. 13-15:30.
 
Þróunarsetrið á Ísafirði
Miðvikudaginn 6. maí kl. 13-15:30.
  
Þróunarsetrið á Hólmavík
Miðvikudaginn 6. maí kl. 13-15:30 &
fimmtudaginn 7. maí kl. 13-15:30.
  
Einnig er hægt að leita til starfsmanna Fjórðungssambands og AtVest eftir leiðbeiningum og aðstoð utan þessa tíma, allt þar til umsóknarfrestur rennur út. Umsóknarblöð og úthlutunarreglur er að vinna á www.vestfirdir.is/uppbyggingarsjodur og rétt er að benda á að á umsóknarblaðinu sjálfu er að finna nokkuð ítarlegar leiðbeiningar um útfyllingu einstakra reita.

Óskað eftir umsóknum í nýjan Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

Nú hefur verið stofnaður nýr Uppbyggingarsjóður Vestfjarða sem rekinn er innan vébanda Sóknaráætlunar landshlutans og er í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann tekur við hlutverki Menningarráðs Vestfjarða og Vaxtarsamnings Vestfjarða og veitir styrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar- og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015. Í vor verður í fyrsta skipti úthlutað úr sjóðnum og er umsóknarfrestur til og með 30. apríl. Til ráðstöfunar í úthlutun eru um það bil 60 milljónir að þessu sinni, sem er svipuð upphæð og úthlutað var á grundvelli menningar- og vaxtarsamninga á síðasta ári.

 

Veittir verða stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, verkefnastyrkir til menningarmála og verkefnastyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Nýbreytni er að hægt er að sækja um stærri styrki til lengri tíma en áður, allt að þremur árum. Skila verður umsóknum á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem er að finna ásamt frekari upplýsingum og úthlutunarrreglum hér á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga – www.vestfirdir.is/Uppbyggingarsjodur.

 

Samþykkt hefur verið að árið 2015 verði litið sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

 

a)  Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja sem byggja á nýsköpun, einnig vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
b)  Verkefni sem stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og aukinni fagmennsku í menningarstarfi
c)  Verkefni sem fjölga eða styðja við atvinnutækifæri á sviði lista og menningar
d)  Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu
e)  Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
f)  Verkefni sem skapa viðskiptatækifæri og verðmæti á sviði skapandi greina
g)  Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur eða stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir ungt fólk á svæðinu
h)  Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem auka útflutningstekjur eða eru gjaldeyrisskapandi
i)   Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á sviði líftækni
j)   Verkefni sem byggja á samstarfi fyrirtækja og rannsóknaraðila, þ.m.t. háskólastofnana

 

Hægt er að hafa samband og senda umsóknir rafrænt á netfangið uppbygging@vestfirdir.is. Starfsmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga veita ráðgjöf við gerð umsókna í Uppbyggingarsjóð og sama gildir um starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Niðurstaða fundar með forstöðumönnum opinberra stofnana í Reykjavík þann 4. desember 2014

Boðað var til fundar með forstöðumönnum opinberra stofnana í Reykjavík þann 4. desember 2014 á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn var hluti af verkefni um markaðssetningu Vestfjarða með stuðningi Sóknaráætlunar landshluta.

Hægt er að nálgast skýrslu um niðurstöðu fundarins á vef Sóknaráætlunar Vestfjarða um greiningar á Vestfjörðum. Einnig er hægt skoða skýrsluna með því að klikka á myndina hér fyrir neðan.

 

Tilgangurinn var að ræða eflingu opinberra stofnana á Vestfjörðum. Fundurinn var hugsaður sem samskiptavettvangur þar sem þátttakendum var gefinn kostur á að koma skoðunum sínum um eftirfarandi atriði á framfæri á vinnuborðum:


1. Hvernig má efla starfsemi opinberra stofnana á Vestfjörðum?
2. Hvaða þröskulda þarf að yfirstíga?
3. Hvernig á að markaðssetja Vestfirði gagnvart opinberum stofnunum?

Umræðurnar snerust ekki um einstaka stofnun eða fyrirfram ákveðna tilfærslu opinberrar starfsemi. Fundurinn var umfram allt haldinn á jákvæðum nótum þar sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga lögðu áherslu á faglega umræðu um málefnið.