| | |

Skýrsla nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum

Nefnd sem forsætisráðherra skipaði þann 15. mars 2007 til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum hefur lokið störfum og skilað skýrslu með margvíslegum tillögum.

Nefndin áætlar að tillögurnar 37 geti skapað um 80 störf sem kalla myndi á viðbótarkostnað upp á rúmlega 500 m.kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda.

Eru innflytjendur hvalreki eða ógn fyrir samfélögin á landsbyggðinni?

Eru innflytjendur hvalreki eða ógn fyrir samfélögin á landsbyggðinni?
Ráðstefna um þátttöku og móttöku innflytjenda í dreifbýli verður haldin í Hömrum á Ísafirði dagana 26.-28. mars 2007.

Fjölmenningarsetur og Háskólasetur Vestfjarða efna til ráðstefnu á Ísafirði þar sem margir helstu fræðimenn í málefnum innflytjenda og byggðarþróunar flytja erindi og velta ýmsum flötum upp.

Málefni innflytjenda hafa verið í deiglunni upp á síðkastið og margar spurningar vaknað um stöðu þeirra og hvert sé hlutverk stjórnvalda. Ákveðinn ótti hefur einkennt umræðuna, meðal annars hvort íslenskt samfélag geti tekið við þeim fjölda innflytjenda sem hefur flust til Íslands síðastliðið ár eftir frekari opnun Evrópu. Hafa innflytjendur eitthvað fram að færa til samfélagsins eða eiga þeir að samlagast þjóðfélaginu? Á sama tíma og landsbyggðin glímir við fólksfækkun hafa innflytjendur flust á landsbyggðina og að einhverju leyti stemmt stigu við þessari þróun. En hver eru áhrifin? Eru innflytjendur hvalreki eða ógn fyrir samfélög á landsbyggðinni?Breski sendiherrann Alp Mehmet og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra ætla að hafa skoðun á þessu.


Meðal fyrirlesara er einnig Philomena de Lima, en hún mun greina frá stöðu farandverkafólks í dreifbýli á Bretlandi. De Lima mun einnig fjalla um orðræðuna sem á sér stað í Bretlandi um þessar mundir. Hún segir neikvæða orðræðu um innflytjendur oft vatnstengda samanber „flooded“ og „swamped“ í ensku. Á Íslandi tengist orðræðan einnig vatni, svo sem þegar talað eru um „mikið flæði“ af innflytjendum og „stríðan straum“ af erlendu vinnuafli.


David Bruce mun kynna verkefni í Kanada þar sem markvisst var unnið að því að laða innflytjendur til þeirra sveitarfélaga þar sem fólksfækkun var mikil. Hvað var gert og skilaði það árangri fyrir byggðarlagið? Geta sveitafélög hérlendis nýtt sér reynslu Kanadamanna?


Norska fræðakonan Marit Anne Aure segir frá rannsókn sinni á aðstæðum farandverkafólks í norðurhluta Noregs, á bakgrunni þess og stöðu, af hverju einstaklingur gerist farandverkamaður og hvaða áhrif það hefur á líf hans.


Nátengdur umfjöllunarefni Marit Anne Aure er fyrirlestur Unnar Dísar Skaptadóttur og Önnu Wojtynsku sem fjallar um innflytjendur á Vestfjörðum, „Vestfirðir, heimili eða verbúð?” Þær spyrja hvernig reynslan við að flytja til nýs staðar hefur áhrif á sjálfsmynd einstaklings og hvaða hópi hann tilheyrir.


Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þá áhugaverðu fyrirlestra sem verða á ráðstefnunni. Á vef Háskólaseturs Vestfjarða, www.hsvest.is , má fá nánari upplýsingar um erindi Berglindar Ásgeirsdóttur, Brendu Grzetic, Rolands Beshiri, Barböru Neis, Hafliða H. Hafliðasonar, Magnfríðar Júlíusdóttur, Wolfgangs Bosswick og Sigríðar Elínar Þórðardóttur.


Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra mun setja Íbúaþing sem verður haldið í tengslum við ráðstefnuna þar sem stjórnmálaumræðan verður tekin fyrir.


Ráðstefnan hlaut styrk frá Evrópusambandinu í tengslum við vitundarvakningu í samfélögum.


Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á vef Háskólasetursins www.hsvest.is.