| | |

Dorothee Lubecki lætur af störfum hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða

Dorothee Lubecki (Dóra) hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða eftir 10 ára starf, eða allt frá upphafi starfsemi félagsins. Meginverkefni hennar hafa tengst ferðamálum og uppbyggingu ferðaþjónustu, nú síðast sem klasastjóri í ferðaþjónustu og menningarklasa Vaxtarsamnings Vestfjarða. Hún hefur einnig stýrt tveim Evrópuverkefnum hjá félaginu auk þess að halda utanum verkefni er tengjast atvinnumálum kvenna.

Dóru eru þökkuð hennar störf hjá félaginu sem unnin hafa verið af dugnaði og ósérhlífni og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi sem Menningarfulltrúi Suðurlands. Hún lætur af störfum hjá félaginu um miðjan september n.k..

Kynnisferð Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna

Síðustu fjögur ár hefur Byggðastofnun haft samninga við átta atvinnuþróunarfélög á landinu. Í þessum samningum eru viðfangsefni félaganna skilgreind ásamt samstarfi þeirra og Byggðastofnunar. Í samræmi við þá er fjármagni sem Alþingi veitir til atvinnuþróunar deilt út til félaganna og nú stendur fyrir dyrum endurskoðun þessara samninga. Af því tilefni skipulagði Byggðastofnun kynnisferð til Jótlands frá 1. til 4. maí sl. með þátttöku frá öllum atvinnuþróunarfélögunum, Byggðastofnun og Impru nýsköpunarmiðstöð. Ferðin var einkar vel heppnuð, alls staðar frábærar móttökur og erindi.

Heimsóttar voru stofnanir á ríkisstigi, landshlutastigi og sveitarfélagsstigi, fyrst systurstofnun Byggðastofnunar í Danmörku, Erhvervs- og byggestyrelsen, regional udvikling í Silkiborg. Hún sýslar með fjármagn sem veitt er til Danmerkur úr Uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins, bæði Samfélagssjóðnum (Socialfonden) og Byggðasjóðnum (Regionalfonden).

Í Árósum var kynning á starfsemi Væksthus Midtjylland, sem er stofnun sambærileg við atvinnuþróunarfélag á Íslandi og Erhvervsafdelingen, Århus kommune. Á Suður-Jótlandi var kynning í Vejle á Vækstforum Syddanmark, sem er sambærileg við stjórn vaxtarsamnings á Íslandi og í Kolding á Þríhyrnunni svokölluðu, Trekantområdet, formlegu samstarfi sveitarfélaga á sviði atvinnu-, menningar- og menntamála og byggðaþróunar.Ríkisstjórn Danmerkur hefur ákveðið að bregðast hart við áskorunum alþjóðavæðingarinnar og að Danir verði þar í fremstu röð. Í kjölfar þess hafa ömtin verið lögð af, landinu verið skipt í 5 stóra landshluta og nú er verið að móta starfið í landshlutunum. Það var lærdómsríkt að heyra um markmið, áherslur og aðferðir sem verið er að móta einmitt núna og sjá þann kjark og áhuga sem einkenndi starfsfólk í því brautryðjendastarfi sem fram fer.

Sá lærdómur sem fékkst í ferðinni mun örugglega skila sér inn í viðræður Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna sem framundan eru.

Eftirtaldar stofnanir voru heimsóttar á Jótlandi:

Erhvervs- og byggestyrelsen, regional udvikling í Silkiborg, www.ebst.dk/regionaludvikling/0/3/0  

Væksthus Midtjylland í Árósum, www.startvaekst.dk  

Erhvervsafdelingen, Århus kommune í Árósum, www.aarhuskommune.dk/portal/organisation/borgmesterens_afdeling/erhverv ). www.aarhuskommune.dk/portal/organisation/borgmesterens_afdeling/erhverv

Vækstforum Syddanmark í Vejle, www.regionsyddanmark.dk/wm190491  

Trekantområdet í Kolding, www.trekantomraadet.dk

Lay Low á PopKomm

Staðfest hefur verið að íslenska tónlistarkonan LayLow muni koma fram á PopKomm ( www.popkomm.de ) 19. - 21. september nk. Hátíðin er ein af mikilvægustu kaupstefnum tónlistarbransans í Evrópu en hún samanstendur bæði af sýningu og lifandi flutningi. PopKomm nýtist þeim sem vilja gera viðskipti í Þýskalandi og Evrópu eða treysta í sessi þau sambönd sem þegar eru í deiglunni. PopKomm er fyrir allar tónlistarstefnur en umsóknarfrestur til að sækja um að spila á hátíðinni rennur út þriðjudaginn 15. maí. Allar umsóknir þurfa að fara í gegnum netið en frekari útskýringar á umsóknarferlinu er að finna á www.popkomm.com/festival 

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar hyggst standa fyrir þjóðarbás á PopKomm og er það í fyrsta skipti sem Íslendingar verða með bás á sýningunni. Mjög vel heppnuð blaðamannaferð á Aldrei fór ég suður leiddi af sér heilsíðugrein í Musik Wocke sem er aðalviðskiptatímarit tónlistariðnaðarins í Þýskalandi. Ritstjóri tímaritsins hefur jafnframt ákveðið að gera 4-5 blaðsíðna ítarlega umfjöllun um íslenskt tónlistarlíf sem birt verður tveimur vikum fyrir PopKomm og ætti því að nýtast vel þeim sem taka þátt í hátíðinni.

Þátttökugjald fyrir hvert fyrirtæki eða einstakling sem ákveður að skrá sig á PopKomm hátíðina í gegnum ÚTÓN er 25.000 krónur ef gengið er frá skráningu fyrir 15. júní nk.

Frekari upplýsingar veitir Anna Hildur í símum 8244371 eða +44 780 1161718 eða á tölvupósti anna@icelandicmusicwww.popkomm.de/

Opnir fundir um atvinnumál

Nefnd Forsætisráðuneytis um atvinnulíf á Vestfjörðum boðar til opinna kynningarfunda í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, þriðjudaginn 15. maí n.k., kl 12.00 og sama dag á Café Riis á Hólmavík kl 20.00.

Kynnt verður skýrsla nefndarinnar sem kynnt var af forsætisráðherra og iðnðararáðherra þann 17. apríl s.l.

http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2597

Frummælandi á fundinum verður formaður nefndarinnar Halldór Árnason, skrifstofustjóri í Forsætisráðuneytinu. Í framhaldinu verða umræður og fyrirspurnir. Fundinn sitja einnig aðrir nefndarmenn þau Aðalsteinn Óskarsson, Guðrún Þorleifsdóttir og Halldór Halldórsson

Ræktun á bláskel - fundur 3.maí nk

Undirbúningsfundur fyrir stofnun þekkingarklasa í bláskeljarækt á Vestfjörðum verður haldinn í Þróunarsetri Vestfjarða á Ísafirði fimmtudaginn 3.maí nk kl.14:00-16:30.

Nánari upplýsingar ásamt dagskrá má finna á heimasíðu Vaxtarsamnings Vestfjarða

Evrópufundur á Ísafirði

Evrópusamtökin og Heimssýn standa fyrir fundaröð á Norðurlandi og Vestfjörðum um Evrópumál. Velsóttur fundur var haldinn í Háskólanum á Akureyri í vikunni en á laugardaginn n.k. kl. 12.00 verður haldinn fundur á Hótel Ísafirði.

Þorvaldur Gylfason, prófessor talar fyrir hönd Evrópusamtakanna en Ragnar Arnalds fyrir hönd Heimssýnar.

Allt áhugafólk um Evrópumál er hvatt til að mæta og kynna sér þau rök sem málshefjendur munu færa fram. Umræðan um Evrópumál kraumar undir niðri þótt ekki virðist það ætla að verða að kosningamáli nú. Íslensk fyrirtæki eru í umvörpum að færa viðskipti sín yfir í aðra gjaldmiðla en íslensku krónuna þannig að Evrópuvæðing atvinnulífsins er í fullum gangi. Sjálfsagt mun pólitísk staða Íslands, öryggis- og varnarmál og almenn þróun í heiminum verða rædd.

Súpa verður í boði fyrir fundargesti.