| | |

WaterTrail / IPA umsókn

Umsækjendur um IPA styrki Evrópusambandsins til verkefna á sviði atvinnuþróunar og byggðamála hafa verið að fá niðurstöður faglegs mats íslenskra og erlendra sérfræðinga. Þar á meðal hefur WaterTrail hópnum boðist að ganga til samningsviðræðna um áframhald verkefnisins. Hér er vissulega um mikilvægan áfanga að ræða. Samstarfshópurinn er bjartsýn en jafnframt meðvitaður um að enn sé töluvert langt í land. Sótt var um styrk að upphæð EUR 485.675 og er tímarammi verkefnisins áætlaður frá september 2013 til september 2015.

 

Umsóknin byggir á samstarfi sem nær til þriggja landsvæða; Vestfjarða, Norðurlands vestra og Vesturlands. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) er aðalumsækjandi og meðumsækjendur eru 13: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra (SSNV), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV), Landbúnaðarháskólinn (LbhI), Háskólinn Bifröst, Náttúrstofa Vesturlands ( NSV), Náttúrustofa Vestfjarða (Nave), Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV), Umhverfisstofnun - Hveravellir, Ferðaþjónustan Reykjanesi, Sjávarsmiðjan á Reykhólum – Þaraböð, Snæfellsbær – Lýsuhóll, Stykkishólmsbær og Handtak – Grettislaug (Drangeyjarferðir). Helstu samstarfsaðilar eru Ferðamálastofa Íslands, Vatnavinir Vestfjarða (VV), Vatnavinir Íslands, Listaháskóli Íslands og Vesturferðir.

 

Meginmarkmið verkefnisins er að þróa fyrirmyndir að 5 til 6 hágæða vetraráfangastöðum og aðdráttaröflum með því að virkja á umhverfisvænan hátt heitt vatn, jarðvarma og náttúru landsins til atvinnusköpunar og bættrar heilsu íslendinga sem og erlendra gesta. Unnið verður að lengingu ferðamannatímabils með mótun og uppbyggingu áfangastaða í vellíðunarferðaþjónustu og skapa þannig fjölbreyttari og fleiri störf í vetrarferðaþjónustu. Ferðamanninum verður gert kleift að upplifa náttúruperlur og menningu svæðisins í gegnum náttúrulaugar og vellíðunarþjónustu sem samstarfshópurinn þróar. Verkefninu er ætlað að stuðla að fjölbreyttri atvinnusköpun, nýjungum í vellíðunarferðaþjónustu og bættri verðmætasköpun á samstarfssvæðunum.