| | |

Verkefnasjóður sjávarútvegsins auglýsir eftir umsóknum

Verkefnasjóður sjávarútvegsins, deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði, auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna- og þróunarverkefna. Umsóknafrestur er til 31. desember 2010.

Sjóðurinn mun styrkja rannsóknir á sjávarlífverum sem nú eru nytjaðar eða sem mögulegt væri að nytja. Áhersla verður lögð á verkefni sem efla rannsókna- og þróunarstarf á lífríki sjávar umhverfis Ísland og styrkja til lengri tíma litið sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og samkeppnishæfni sjávarútvegs. Horft verður til grunnslóðarannsókna, vöktunar strandsvæða, þorskrannsókna og verkefna sem tengjast þróun aðferða við nýtingu á lífverum sjávar, svo sem líftækni sem og fleiri þátta sem kunna að falla að verkefnum og tilgangi sjóðsins.

Við mat umsókna verður lögð áhersla á nýnæmi verkefnisins m.t.t. nýrrar þekkingar og/eða aukinna nýtingarmöguleika á lífríki sjávar. Veittir verða styrkir til stærri verkefna, allt að 8 m.kr. hver, og til smærri verkefna allt að 2 m.kr. hver. Styrkur nemur að hámarki 50% af áætluðum heildarkostnaði viðkomandi verkefnis. Styrkir eru veittir til eins árs í senn. Heimilt er að veita framhaldsstyrk á grundvelli nýrrar umsóknar, enda standist verkefnið kröfur um framvindu og gæði.
Allir geta sótt um styrki, einstaklingar, fyrirtæki og rannsókna- og háskólastofnanir. Í stærri verkefnum er hvatt til samstarfs mismunandi aðila með þátttöku vísindamanna víða af landinu.

Þeir sem fengu styrk úr sjóðnum við síðustu úthlutun og hyggjast sækja um framhaldsstyrk skulu skila skýrslu um stöðu verkefnisins, ella koma viðkomandi umsóknir ekki til greina við úthlutun.

Nánari upplýsingar um sjóðinn og leiðbeiningar um frágang umsókna er að finna á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins www.sjavarutvegsraduneyti.is