| | |

Veisla að Vestan

Veisla að Vestan er þróunarverkefni í matartengdri ferðaþjónustu sem Atvest hefur unnið að ásamt góðum hópi fólks undanfarna mánuði. Tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst að vekja athygli á vestfirskum matvælum sem mun leiða af sér aukinn sýnileika og aukna veltu þeirra fyrirtækja sem vinna með vestfirskt hráefni.


Hér eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki og veiðar og vinnsla á sjávarafurðum, landbúnaðarframleiðsla og öflun matartengdra hlunninda hafa löngum verið undirstöðuatvinnugreinar hér á Vestfjörðum. Vestfirðingar búa yfir mikilli þekkingu á sviði matvælaframleiðslu og hafa fulla ástæðu og burði til að hasla sér enn frekari völl á þessu sviði.

Með samvinnu þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem vinna með vestfirskt hráefni má sameinast um ákveðin verkefni eins og vöruþróun, uppsetningu og samnýtingu á framleiðslutækjum, markaðsrannsóknir, sameiginlega markaðs setningu á vörumerkjum og skipulagða dreifingu.

Allir þeir sem vinna með vestfirskt hráefni eða hafa áhuga á að vinna með vestfirskt hráefni eru boðin velkomin til þátttöku en kynningarfundir verða næstu daga á verkefninu.

Kynningafundirnir verða sem hér segir:
Hólmavík 5. Mars kl 12.00 á Cafe Riis
Patreksfjörður 12. Mars kl 12.00 á Þorpinu
Ísafjörður 12. Mars kl 16.00 í Þróunarsetrinu.

Búið er að gefa út fréttabréf sem dreift hefur verið í öll hús og fyrirtæki á Vestfjörðum en fréttabréfið má lesa hérna.