| | |

Rækjuverkefni lokið

Rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði hefur í samstarfi við Matís, 3X Technology og Vaxtarsamning Vestfjarða lokið við verkefni sem miðar að því að bæta nýtingu á ferskri rækju. Það er það þekkt innan rækjuvinnslu að framleiðsla úr uppþíddu hráefni skili töluvert betri nýtingu en úr fersku. Nýting hráefnis skiptir miklu í vinnslu á rækju, enda hráefnikostnaður langstærsti kostnaðarliður vinnslunnar, Verkefnið skiptir því miklu máli og hefur jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu. Eitt prósent í nýtingaraukning í vinnslu hjá Kampa getur skilað um 80 milljónum króna í framlegð.

Ferskt hráefni sem kemur til vinnslu hjá Kampa er úthafsrækja og innanfjarðarrækja, en innanfjarðarrækjan kemur aðallega úr Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Gunnar Þórðarson verkefnisstjóri verkefnisins og starfsmaður Matís segir að betri árangur í þessari vinnslu skipti atvinnulífið í Ísafjarðarbæ miklu máli, og styrki um leið vinnslu Kampa sem sé í mikilli samkeppni við aðrar vinnslur um hráefni. „Árangur þessa verkefnis var framar vonum þar sem saman fer betri nýting og gæði afurða Kampa sem styrkir rekstur fyrirtækisins,“ segir Gunnar.

Samstarf aðila úr atvinnulífi og vísindasamfélagi skiptir miklu í svona verkefni og styður við nýsköpunarverkefni sem treystir rekstur framleiðslufyrirtækja til langs tíma. Til að sinna rannsóknar og þróunarstarfi þarf bæði fjármagn og skipulag og fjármagnaði Vaxvest hluta af þróunarkostnaðinum og var verkefnið í anda stefnu og markmiða Vaxvest.