| | |

Prófanir á jarðhita á Reykhólum

Holan við sundlaugina er afar aflmikil
Holan við sundlaugina er afar aflmikil
1 af 2

Vikuna 13.-16. febrúar hafa staðið yfir á Reykhólum mælingar á heitavatnsholum. ISOR mætti með rannsóknastöð í sendibíl og höfðu krakkarnir ómældan áhuga á að kíkja inn og velta fyrir sér tölvubúnaði og línuritum. Sigurður Garðar Kristjánsson fór fyrir flokknum. Móttökuliðið var ekki lakara; starfsmenn Orkubúsins stóðu vaktina dyggilega með þeim, þar á meðal Guðmundur á Grund. Í vikunni áður höfðu suðumenn í nógu að snúast (Ingimundur, frá OV) við að sjóða fyrir göt á leiðslum, endurnýja lagnir undir gatnamótum (Brynjólfur Smárason) hækka borholuhús og festa stúta á holutoppa.

Þar með var hægt mæla rennsli, hita og þrýsting. Slík heildarmæling á öllum holum hefur ekki farið fram á Reykhólum til þessa. Niðurstöður mælinga eiga að geta sagt til hvort heildar-jarðvarmaauðlindin geti staðið undir þeirra notkun sem hefur verið lögð á kerfið og hvort hugsanlega megi taka meira. Flæði úr holum hefur verið sjálfkrafa, engar botndælur eru notaðar við að ná vatninu. Hitinn mælist yfirleitt á bilinu 100-115°C og er það óvenju hátt fyrir lághitasvæði. 

Þegar niðurstöður mælinga liggja fyrir mun ISOR geta ráðlagt leyfishöfum um framhaldið. Áhugi er á því að nýta betur affallsvatnið frá iðnverunum sem standa sunnan við þorpið. Þar hefur affallshitinn verið allt að 70°C. Nú er Þörungaverksmiðjan að breyta ýmsum kerfum hjá sér þannig að búist er við að affallið komi kaldara út. Saltverksmiðjan gæti þegið meira af heitasta vatninu. Nýjar lagnir til að taka aftur affallið eru hins vegar dýrar og þurfa að borga sig í tímans rás. Affallsvatnið væri hægt að nýta til útibaða, fiskeldis, kjúklingabús og ýmis konar smáiðnaðar. Vonandi nýtist þessi auðlind betur í framtíðinni þannig að fleiri fyrirtæki og notendur geti nýtt þessa ríkulegu auðlind og þorpið stækkað.