| | |

Nýsköpunarkeppni Vestfjarða

Alls bárust þrettán viðskiptaáætlanir í Nýsköpunarkeppni Vestfjarða, en umsóknarfrestur rann út 10.desember sl.
 
Nýsköpunarkeppni Vestfjarða 2013 er haldin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Fjórðungssambandi Vestfirðinga í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og FabLab á Ísafirði.
 
Keppnin er hluti af sóknaráætlun Vestfjarða og er fjármögnuð með framlagi ríkisstjórnarinnar til sóknaráætlunar landshlutanna fyrir 2013.
 
Keppninni er ætlað að styðja við frambærilegar nýsköpunarhugmyndir og styðja frumkvöðla til framkvæmda með fjárframlagi og faglegri ráðgjöf. Þessar hugmyndir eiga svo að styðja við uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Endanlegt markmið keppninnar er að styðja fjögur verkefni með fjárframlagi sem yrði til þess að skapa ný störf.
 
Margar áhugaverðar viðskiptaáætlanir voru sendar inn í keppnina víðast hvar af Vestfjörðum og snerta þær margar ólíkar atvinnugreinar á Vestfjörðum.
 
Sjö manna dómnefnd vinnur nú úr niðurstöðunum og verða úrslit úr keppninni tilkynnt í janúar. Veitt verða peningaverðlaun fyrir fjórar bestu viðskiptaáætlanirnar. Veitt verða samtals 14 milljónir í verðlaunafé og skiptast þær þannig að í fyrstu verðlaun eru 5.000.000, í önnur verðlaun eru 4.000.000, í þriðju verðlaun eru 3.000.000 og loks 2.000.000 í fjórðu verðlaun.
 
Því til viðbótar verður veitt sérfræðivinna frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða allt að 150 klst. á hvert verkefni yfir næstu 2-3 ár.
 
Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á heimasíðu keppninar