| | |

Nýr starfsmaður AtVest á Ströndum og Reykhólum

María Hildur Maack hefur hafið störf að hluta fyrir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Hún mun hafa aðsetur á hreppsskrifstofu á Reykhólum á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum (8-16, frá og með 1. september) en að jafnaði á Hólmavík á mánu- og miðvikudögum (9-17 frá sama tíma).  Hægt er að hafa samband við Maríu nú þegar um verkefni í gegnum mmaaria@atvest.is . María hleypur í skarðið fyrir verkefnisstjóra félagsins hana  Viktoríu, sem stefnir á frekara nám.

María hefur starfað við rannsóknir, verkefnastjórnun og almannatengsl fyrir Íslenska NýOrku. Einnig á hún að baki langa sögu í þróunarverkefnum í ferðaþjónustu og umhverfismálum. María hefur MS próf í umhverfisstjórnun frá IIIEE í Lundarháskóla og BSc í líffræði frá Háskóla Íslands og í Gautaborg með áherslu á sjávarvistfræði. Að auki er hún að leggja lokahönd á doktorsverkefni í visthagfræði um heildaráhrif þess að nota rafmagn og vetni í íslenskum landsamgöngum í stað olíu. María hefur reynslu af verkefnastjórnun bæði í alþjóðlegum samskiptum og á Íslandi. Hún hefur kennt á öllum skólastigum og verið leiðsögumaður um Ísland á sumrum, enda mikil tungumálamanneskja. Hún býr nú á Reykhólum.