| | |

Nýr starfsmaður Atvest

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur ráðið Jón Pál Hreinsson til starfa hjá félaginu. Það sóttu 9 aðilar um starfið sem auglýst var og eftir að ráðningastofan Talent mat hæfni umsækjanda var niðurstaðan sú að Jón Páll þótti hæfastur í starfið.

 

Jón Páll er með masters gráðu í alþjóðaviðskiptum og hefur unnið sem ráðgjafi í þróunar- og frumkvöðla verkefnum á undanförnum árum í sínu eigin fyrirtæki. Áætlað er að Jón Páll loki fyrirtæki sínu og hefur hann störf hjá Atvest þann 1. Febrúar.

 

Jón Páll þekkir vel til stuðningsumhverfis atvinnulífsins og hefur náð góðum árangri í styrkumsóknum og uppbyggingu frumkvöðlaverkefna, þar á meðal vann hann að þróun framleiðslu fluguveiðihjóla á Ísafirði þar sem hann starfaði á tímabilinu 2010-2011. Jón Páll þekkir vel til uppbyggingu á ferðaþjónustu á svæðinu enda starfaði hann sem forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða á árunum 2006-2010 . Sjávarútveginn þekkir hann einnig vel þar sem hann var markaðsstjóri 3x-Stál (nú 3x Technology) á árunum 2000-2004 og vann í markaðs- og sölustarfi á Íslandi og í Evrópu.

 

Einnig hefur hann unnið að uppbyggingu áhugaverðra samfélagsverkefna á borð við Mýrarboltann, Fossavatnsgönguna ásamt því að sinna félagsstörfum í Héraðssambandi Vestfirðinga.