| | |

Matreiðslukeppni landshlutanna og Ferðasýning

Um helgina stendur yfir Matreiðslukeppni landshlutanna og Ferðasýning í Laugardalshöll en Veisla að Vestan er þátttakandi á báðum þessum viðburðum. Í matreiðslukeppninni mun Guðmundur Helgason Matreiðslumeistari á Hótel Núpi keppa fyrir hönd Vestfjarða og hefur verið settur fram glæsilegur matseðill þar sem nánast eingöngu er stuðst við hráefni frá Vestfjörðum. Má þar nefna lambakjöt, Lostalengjur, bláskel,reykta tindabykkju, plokkfisk, ber, krydd, sultur, ábrystir, rjóma og plómur. Framleiðendur í Veisla að Vestan leggja til hráefni í keppnina og kom það skemmtilega á óvart hversu mikið er í boði hérna fyrir vestan og hefði hæglega verið hægt að búa til nokkra matseðla úr því afbragðshráefni sem framleitt er á svæðinu. Meðfylgjandi er matseðill keppninnar en til stendur að bjóða upp á rétti af honum á veitingastöðum á Vestfjörðum í sumar.


Þá verða kynnt á ferðasýningunni þau fyrirtæki sem eru þátttakendur í Veisla að Vestan en þau eru um 30 talsins og eiga það öll sameiginlegt að vinna með vestfirskt hráefni.

Íslenskt Eldhús 2009
Matur úr héraði -Vestfirðir.

Forréttur- Vestfirsk fiskiþrenna
Mysusoðin bláskel - landa og einiberja smjörsósa.
Reykpækluð tindabykkja – rófumús – hafrakex , gullmaðra
Plokkfiskur - rúgbrauð.

Aðalréttur- Vestfirsk lambaþrenna
Lambahryggvöðvi - Blóðberg
Lostalengjur – Álfasulta - Rjómaostur
Kótiletta í raspi - Skessujurt,salvía,kerfilsfræ
Meðlæti: kartöfluþrenna: soðsteikt, mús, flögur, sykurbrúnaðar gulrætur, braseruð sellerýrót, lambasoðsósa.

Eftirréttur- Vestfirsk eftirréttarþrenna
Ábrystir að hætti franskra duggara
Bláberjaís – Stökkt kex
Pönnukaka - berjarjómi