| | |

Kynningarfundur á Vestfjörðum um möguleika á styrkjum til að taka þátt í evrópskum verkefnum

Kynningarfundur á Vestfjörðum um möguleika á styrkjum til að taka þátt í evrópskum verkefnum.
Haldinn í fundarsal Háskólaseturs Vestfjarða, Árnagötu 2-4, Ísafirði og með útsendingu á netinu. Mánudaginn 23. mars 2009, kl 11.00 – 15.00
 

Það liggja ónýtt tækifæri fyrir sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki í evrópskum verkefnaáætlunum. Ríkið greiðir Evrópusambandinu fyrir aðgang íslenskra aðila að þessum áætlunum á grundvelli EES-samningsins. Það er mikilvægt, ekki síst á samdráttartímum, að þessir fjármunir nýtist hér á landi í gegnum þátttöku íslenskra aðila í verkefnum sem njóta styrkja. Fyrirsjáanlegur tekjusamdráttur sveitarfélaga mun leiða til þess að þau hafa minna svigrúm til að ráðast í og styrkja nýsköpun og þróun. Þátttaka í evrópskum verkefnum getur að einhverju leyti bætt það upp.
Styrkir geta numið háu hlutfalli af heildarkostnaði og eigið framlag getur verið í formi vinnu og aðstöðu. Auk þess er hugsanlega hægt að fá styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til að aðstoða við þátttöku. Hér á landi eru reknar kynningarskrifstofur fyrir flestar áætlanirnar. Þar starfar fólk með sérþekkingu á áætlunum sem er tilbúið til aðstoðar og ráðgjafar.


Fulltrúar kynningarskrifstofanna munu halda kynningarfund á Ísafirði þann 23. mars n.k. Að fundinum standa Fjórðungssamband Vestfirðinga, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Vaxtarsamningur Vestfjarða, Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Kynning þessi verður tvíþætt. Fyrir það fyrsta munu fulltrúar kynningarskrifstofanna kynna viðkomandi áætlanir s.s. áherslur og umsóknarfresti. Verður sá hluti sendur út á netinu og geta allir sem áhuga hafa tengst fundinum frá eigin tölvu, netslóð á fundinn verður kynnt þegar nær dregur fundi. Í annan stað munu fulltrúar vera til viðtals á staðnum um ákveðin verkefni eða verkefnahugmyndir.
Sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki á Vesturfjörðum eru eindregið hvött til að nýta sér þetta tækifæri og senda fulltrúa á fundinn. Einnig er markmiðið að fundurinn nýtist þeim sem vilja fá almenna kynningu á verkefnum og er þar bent á netútsendingu. Áætlanirnar taka til ýmissa málaflokka, s.s. fræðslumála, menningarmála, æskulýðs- og tómstundamála, uppbyggingu á rafrænni stjórnsýslu og – þjónustu, mannauðs- og jafnréttismála, félagsþjónustu og umhverfis- og orkumála, sjá nánar meðfylgjandi yfirlit.

Ath. Fundinum verður einnig varpað beint yfir netið til þeirra sem eiga ekki kost á að mæta í fundarsal, áhugasamir fari þá á eftirfarandi vefslóð: media.netsel.is/atvest.  Fyrirspurnir er svo hægt að senda á shiran@atvest.is og verða þær þá bornar upp og fyrirlesari svarar. Einnig verður boðið upp á viðtalstíma um sérstök verkefni og er hægt að bóka viðtöl hjá shiran@atvest.is