| | |

Kynningar- og stofnfundur vegna stafrænnar smiðju (FAB LAB) á Vestfjörðum

Kynningar- og stofnfundur vegna uppsetningar stafrænnar smiðju á Ísafirði verður haldinn í fyrirlestrasal í bóknámshúsi Menntaskólans á Ísafirði mánudaginn 28. febrúar. (gengið inn um anddyri  á neðri hæð). Fundurinn hefst klukkan 12.00.

FAB LAB (Fabrication Laboratory) er hátækni smíðastofa með einföldum stýribúnaði sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleyft að hanna og smíða eigin frumgerðir. Hugmyndafræði FABLAB er að færa hátæknilausnir í iðnaði og hönnun til einstaklinga og smáfyrirtækja þannig að þau geti á einfaldan hátt komið hugmyndum sínum um iðnframleiðslu í framkvæmd.

Til að lýsa hvernig FABLAB stofur virka, er einfaldast að segja að fullkomnar iðnvélar eru notaðar sem „prentarar“ við venjulegar tölvur. Þetta þýðir að einstaklingur getur hannað hlut í tvívídd eða þrívídd í venjulegri heimilistölvu með opnum hugbúnaði, og „prentað“ hlutinn svo út í tvívídd eða þrívídd með fræsurum, leiserskurðarvélum eða öðrum tækjum. Hægt er að smíða einfalda hluti, til dæmis þar sem myndir eru fræstar í gler, timbur eða önnur efni til dæmis í minjagripagerð, en einnig flóknari hluti svo sem rafrásir og smátölvur.
Gert er ráð fyrir að stofan verið í húsnæði Menntaskólans á Ísafirði en með sér inngangi þannig að aðgengi almennings og nemenda annarra skóla verði sem best.

Markmið smiðjunnar er að auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og að efla nýsköpun á Íslandi. Þá er smiðjunni ætlað að auka tæknilæsi almennings og almenna tæknivitund. Markmið smiðjunnar eru enn fremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og að efla samkeppnishæfni iðnaðarfyrirtækja, menntastofnana og nemenda.

Stefnt er að stofnun stýrihóps til að vinna að uppsetningu FAB LAB stofu á Ísafirði. Ætlunin er því að halda kynningu á stafrænni smiðju eða Fab Lab smiðju (Fabrication Laboratory) og jafnframt stofnfund slíks stýrihóps fyrir . Starfssemi Fab Lab smiðju í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki verður kynnt og farið yfir stöðu og framtíðarsýn vegna verkefnisins á Ísafirði.