| | |

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2011. Sérstök áhersla verður lögð á öryggismál á ferðamannastöðum, verkefni þar sem heildrænt skipulag og langtímamarkmið eru höfð að leiðarljósi og aðgengi fyrir alla.

Ferðamálastofa byggir umhverfisstefnu sína á sjálfbærri og ábyrgri ferðamennsku enda er náttúra Íslands sú auðlind sem ferðaþjónustan á Íslandi byggir á til framtíðar. Mikilvægt er að byggja upp innviði sem geta tekið á móti vaxandi fjölda ferðamanna, tryggt öryggi þeirra eftir bestu getu og boðið upp á nauðsynlega þjónustu. Jafnframt þarf að gæta þess að allar áætlanir og framkvæmdir á ferðamannastöðum séu byggðar á vandaðri greiningu og rannsóknum og unnar af mikilli varkárni og virðingu fyrir viðkvæmri náttúru Íslands og sögu. Hönnuðir og skipuleggjendur ferðamannastaða þurfa því að hafa næmt auga fyrir því hvort, og þá hvar og hvernig, mannvirkjum er valinn staður þannig að þau skerði ekki ásýnd hans en ýti fremur undir sérstöðu staðarins og þá upplifun sem ferðamaðurinn sækist eftir.

Umsóknarfrestur er til og með 20. desember 2010. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.


Styrkir til smærri verkefna:
Veittir verða styrkir til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði, áætlanagerð og/eða hönnun. Ekki er veittur styrkur fyrir eldsneyti, fæðiskostnaði eða vinnuframlagi við framkvæmdir.

Styrkir til stærri verkefna:
Veittir verða styrkir til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Styrkupphæð getur að hámarki orðið 50% af kostnaðaráætlun, þó aldrei hærri en 10 milljónir. Hægt verður að áfangaskipta verkefnum og styrkveitingu í 3-5 áfanga á jafnmörgum árum. Hægt er að sækja um styrki fyrir áætlanagerð og/eða hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Við skipulag og hönnun mannvirkja er höfð til hliðsjónar “Menningarstefna í mannvirkjagerð” sem gefin var út af Menntamálaráðaneytinu í apríl 2007 og skipulagslög nr. 123/2010. Ef sótt er um styrk fyrir byggingu mannvirkja eða aðrar framkvæmdir verður skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi að liggja fyrir. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi og rekstri svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með vefpósti sveinn@icetourist.is.  Umsókareyðublað og nánari upplýsingar er að finna á vef Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is