| | |

Eldsmiðjan, sex ólíkar tónlistarkonur á Patreksfirði.

Þriðjudaginn 23. september leggja sex ólíkar tónlistarkonur upp í langferð. Förinni er heitið til Patreksfjarðar en þar ætla konurnar að vinna í pörum að því að skapa nýja tónlist. Stelpurnar sem um ræðir eru þær Íris Hrund, Rósa Guðrún, Soffia Björg, Sunna Gunnlaugs, Una Stef og Þóra Gísladóttir.

Verkefnið ber heitið Eldsmiðjan og stendur félag kvenna í tónlist, KÍTÓN, fyrir smiðjunni.

Í lok vikunnar munu tónlistarkonurnar síðan halda tónleika í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði þar sem tvær og tvær koma fram á hverjum tónleikum.

Fyrstu tónleikarnir verða á föstudagskvöldinu 26. september og hefjast þeir klukkan 21 en það eru þær Soffía Björg og Sunna sem ríða á vaðið.

Á laugardagskvöld er veislunni haldið áfram. Tónleikar þetta kvöld hefjast einnig klukkan 21 og munu þær Rósa Guðrún og Una Stef troða upp það kvöld.

Botninn verður svo sleginn í Eldsmiðjuna á sunnudeginum en þá koma þær Íris Hrund og Þóra fram á síðustu tónleikum Eldsmiðjunnar 2014. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.