| | |

Efnahagsleg áhrif Háskólaseturs Vestfjarða

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vann nýlega úttekt á efnahagslegum áhrifum af starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða.  Neil Shiran Þórisson veitir nánari upplýsingar um skýrsluna.  Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:


Hjá Háskólasetri Vestfjarða (HV) eru um 50 nemar í staðbundnu námi í haf- og strandsvæðastjórnun. Þeir fjármagna nám sitt að mestu leyti með erlendu fjármagni og kemur 94,5% af framfærsluféi þeirra erlendis frá.  Þessir fjármunir fara í að greiða fyrir neyslu og uppihald á svæðinu.


Í neyslukönnun sem framkvæmd var komu fram mikilvægar forsendur sem notaðar voru við útreikninga á aukinni neyslu sem skapast vegna erlendra nema sem stunda nám í haf- og strandsvæðastjórnun við HV.  Þar kom í ljós að erlendu nemarnir eyddu um 82 þkr. á mánuði þar sem húsnæði var stærsti liðurinn um 33 þkr. á mánuði en þar á eftir matvæli og drykkir fyrir 26 þkr. á mánuði og afþreying 12 þkr.


Miðað við fjölda nema í staðbundnu námi í haf- og strandsvæðastjórnun er aukning á neyslu að meðaltali á ársgrundvelli um 49 mkr.  Við HV eru einnig nemar sem sækja styttri námskeið til Vestfjarða á vegum HV og er áætluð neysluaukning sem verður vegna þeirra um 11 mkr.  Til viðbótar við nemana koma til þeirra gestir sem nýta sér verslun og aðra þjónustu og er áætluð neysluaukning sem verður vegna þeirra um 17 mkr.


HV er launagreiðandi og greiðir um 60 mkr. til aðila innan Vestfjarða. Ætla má að þeir fjármunir fari í að greiða einkaneyslu viðkomandi starfsmanna. HV kaupir einnig þjónustu innan svæðisins fyrir 63 mkr. og af aðilum utan þess fyrir 32 mkr. og því þjónustu samtals fyrir 95 mkr. í heildina.  Þar sem HV fær kennara og fyrirlesara til að koma til svæðisins er gert ráð fyrir að neysla slíkra aðila sé í kringum 3 mkr. á árgrundvelli.


Í heildina eru eftirfarandi efnahagsleg áhrif mæld í beinni aukningu á neyslu og launagreiðslum til aðila innan Vestfjarða:

 

 

Samantekt á áhrifum fyrir Vestfirði                                                           Upphæð

Neysla (ásamt húsnæði) nema í haf- og strandsvæðastjórnun 49.212.700
Launagreiðslur HV til aðila innan Vestfjarða 59.438.639
Neysla nema sem koma í styttri sumarnámskeið 11.226.578
Neysla ferðamanna sem heimsækja nema við HV 16.528.050
Neysla kennara innan svæðis sem koma utan Vestfjarða 3.123.750
Þjónusta (þ.m.t. húsnæði) sem keypt er innan Vestfjarða 63.236.807
   
Samtals 202.766.524
   

 

 

Miðað við þær niðurskurðartillögur sem nú liggja fyrir er ljóst að skerða þarf þjónustu HV og sú skerðing hefur áhrif á efnahagsleg áhrif í mkr. eins og tekið er saman í eftirfarandi töflu:

 

Ár Tekjur/framlög til Hsvest Áhrif fyrir Vestfirði
2009 128 203
2010 91 189
2011 64 68

 

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.