| | |

Bjórverksmiðja á Ísafirði

Hópur áhugamanna um framleiðslu á bjór í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (AtVest) leitar að áhugasömum aðilum til að taka þátt í samfélagslegu verkefni um að koma af stað bjórverksmiðju í Ísafjarðarbæ.  Í hópnum eru Gísli Halldór Halldórsson, Gústaf Gústafsson, Jón  Páll Hreinsson, Kristinn Mar Einarsson, Steinþór Kristjánsson, Halldór Antonsson, Ársæll Níelsson, Halldór Eraclides, Örn Ingólfsson, Elías Guðmundsson, Guðmundur Óli Tryggvason og Hallvarður Aspelund.   Nú þegar liggur fyrir að einn frumkvöðlanna í hópnum hefur fengið samþykkt kauptilboð í tækjabúnað sem var í bjórverksmiðju á Snæfellsnesi.  Stefnan er sett á litla bjórverskmiðju sem framleiðir bjór til sölu á veitingahúsum, krám og áfengisverslunum á svæðinu eins og þekkist víða erlendis.  Framtíðarsýnin er sú að brugga gæða Vestfirskan bjór ætlaðan á heimamarkaðinn og þá fjölmörgu ferðamenn sem sækja til Vestfjarða í auknum mæli.

 

AtVest mun halda utan um „hópfjármögnun“ (e. Crowd financing) verkefnið.  Undir þeim formerkjum leitar AtVest nú að áhugasömum einstaklingum sem hafa áhuga á verkefninu og vilja sjá slíka bjórframleiðslu fara af stað heima í héraði.   Áhugsamir aðilar geta sett sig í samband við Shiran Þórisson (shiran@atvest.is / 450-3000) hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða fyrir nánari upplýsingar.