| | |

Aukin framlög Ísafjarðarbæjar til Atvest

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vinnur að útfærslu samnings við Ísafjarðarbæ um fjármögnun verkefna sem snúa að atvinnuuppbyggingu í Ísafjarðarbæ. Það er mikilvægt að Ísafjarðarbær sjái tækifæri í því að styðja við langtíma atvinnuþróunarverkefni með markvissu samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og þessum verkefnafjármagni.


Samstarfið sem slíkt eflir Atvest og styrkir verkefnasafn félagsins til muna. Á næstu vikum og mánuðum er unnið að útfærslu verkefna sem snúa að kvikmyndatökum, þáttaröðum og auglýsingum á Vestfjörðum og á þessu stigi málsins hafa frumviðræður hafist við þekkta framleiðendur sem hafa áhuga á að taka upp efni á Vestfjörðum.

 

Þá er í skoðun hvernig hægt sé að nýta vannýtt iðnaðarhúsnæði í Ísafjarðarbæ fyrir framleiðslufyrirtæki sem þjónar innlendum markaði. Hjá Atvest hefur einnig starfað sumarstarfsmaður sem hefur verið að rýna í möguleikana á því að efla ísafjörð sem þjónustumiðstöð fyrir skútur og að Ísafjörður verði í framtíðinni miðstöð skútusiglinga fyrir norðlægar slóðir. Allt eru þetta verkefni sem eru á frumstigi en búast má við árangri úr þeim, ef vel tekst til á næstu 12-24 mánuðum.

 

Það að Ísafjarðarbær hefur ákveðið að leggja til aukið verkefnafjármagn til félagsins gerir það kleift að hægt sé að vinna að framgangi fyrrgreindra verkefna og hafa þessi verkefni alla burði til þess að skapa störf, auka eftirspurn eftir vörum og þjónustum og markaðssetja Ísafjarðarbæ betur.

 

Hægt er að sjá fréttatilkynninguna hér.

 

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Neil Shiran Þórisson í síma 450 2051 og shiran@atvest.is