| | |

Arctic Fish og ATVEST í samvinnu um uppbyggingu

Vor á Vestfjörðum
Vor á Vestfjörðum

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða í verkefnavinnu fyrir Arctic Fish

Arctic Fish vinnur nú að því í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (ATVEST) að finna samstarfsaðila um kaup eða leigu á því húsnæði sem félagið notaði áður í eldisvinnslu sína á Flateyri. Félagið hefur fengið aðstöðu í húsnæði gamla Íshúsfélags Ísfirðinga og hefur þegar hafið undirbúning að uppsetningu vinnslu þar.

Á Flateyri hafa náðst leigusamningar um hluta húsnæðisins. Þar koma aðilar sem munu byggja upp atvinnustarfsemi á Flateyri. Eldisþjónustan mun einnig byggja upp aðstöðu á Flateyri. Hluti af því húsnæði sem hefur verið leigt út nú þegar mun bjóða þjónustu við fiskeldi. Ísfell hefur leigt aðstöðu til nótaþvottar og viðgerða. Þá eru fleiri verkefni í undirbúningi sem greint verður frá síðar.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Til lengri tíma má gera ráð fyrir því að fiskeldi, vinnsla og fleiri stoðgreinar muni ná fótfestu líkt og á við um hefðbundnar bolfiskveiðar og -vinnslu. Við uppbygginguna verður sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Arctic Fish hefur fyrst eldisfyrirtækja á Íslandi fengið vottun samkvæmt hinum eftirsótta ASC umhverfisstaðli. Unnið verður að því að taka tillit til annarra hagsmunaðila á svæðinu sem nýta sjávarauðlindina. Reynt verður eftir fremsta megni að vinna í sátt við aðra atvinnustarfsemi sem og þeirra samfélagslegu og umhverfislegu sjónarmiða sem ferlið kallar á.

Arctic Fish hefur samið við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (ATVEST) um ráðgjöf í svæðisbundnum þróunarverkefnum. Atvest mun því halda utan um uppbygginguna sem framundan er í Ísafjarðarbæ á komandi mánuðum fyrir hönd Arctic Fish.