| | |

Súpufundur ferðaþjóna

Frá Café Riis í Moss í Noregi
Frá Café Riis í Moss í Noregi

Haldinn var súpufundur miðvikudaginn 17. maí á Hólmavík. 18 ferðaþjónar komu á fundinn og gæddu sér á dásamlegri súpu frú Báru á Café Riis. Völundur Jónsson frá Bokun.is kynnti starfsemi fyrirtækisins og eðli kerfisins, en það felur í sér rafræna bókun, greiðslur og söluumboð fyrir aðra ferðaþjónustu. Hann fór yfir möguleika á notkun kerfisins fyrir greinina hér á svæðinu og sýndi hvernig hægt er að fella það inn í heimasíður viðkomandi fyrirtækja. Um 630 ferðaþjónustuaðilar nota bokun.is hérlendis og það er að verða sífellt vinsælla erlendis. Þð gerir það að verkum að fólk sem bókar á einum stað  sér hvaða þjónusta er í bóði í nágrenninu og getur bókað annað samhliða viðskiptum við valda þjónustu. 

Gísli Ólafsson frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Láka á Grundarfirði greindi frá því að fyrirtækið ætlaði að hefja rekstur á Hólmavík í sumar og vera með einn hvalaskoðunarbát frá miðjum júní og fram í september, enda henti svæðið afar vel til hvalaskoðunar. Hann og fyrirtækið voru boðin velkomin á svæðið.

Rætt var um framhald súpufunda af þessu tagi. Fundarmenn voru á því að slíkir fundir væru mjög gagnlegir og stefnan var tekin á að halda þá mánaðarlega, allavega yfir vetrartímann, en þó yrði haldinn annar fundur um miðjan júní, áður en ferðamannatímabilið hefst fyrir alvöru.

Stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu

Nú liggur fyrir stefna ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum. Í samantektinni er gerð grein fyrir markmiðum, aðgerðurm og hvernig verður fylgt eftir þeim áföngum sem stefnt er að. Allir ferðaþjónar á svæðinu ættu að kynna sér heildarstefnuna og leggja sitt af mörkum, til dæmis með því að tileinka sér hugmyndirnar og taka þátt í samvinnu og samráði við aðra í greininni svo hún megi verða hornsteinn atvinnulífs á Vestfjörðum. 

Svæðisskipulag Vestfjarða

Nú hafa sveitarfélögin fengið lokaplagg stefnumörkunar Fjórðungsins til þess að taka til umfjöllunar og afgreiðslu. Stefnt er að því að skipuleggja og samhæfa atvinnustarfsemi við umhverfisvernd á öllum Vestfjörðum. Plaggið sem hér er viðhengt hefur verið mótað af hálfu íbúa og sveitarfélaga á fundum í vetur. Svæðisskipulag tekur yfir mörg sveitarfélög. 

Uppbyggingarsjóður auglýsir umsóknarfrest

Nú er aftur gefinn kostur á að sækja um styrki í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Að þessu sinni geta styrkir numið samtals allt að 13. milljónum. Það vildi brenna við í síðustu umferð að umsóknir væru ekki mótaðar í samræmi við leiðbeiningar. Vandið því til verka og leitið til atvinnuþróunarfulltrúa og starfsmanna Fjórðungssambandsins með aðstoð [valgeir (hja) atvest.is og mmaaria (hja) atvest.is } Þeir fiska sem róa, eins og segir í páskaegginu. 

Sjá hér: vestfirdir.is/uppbyggingarsjodur/

Samvinna ferðaþjóna á svæði Reykhólahrepps, Stranda og Dala

Ferðaþjónusta hefur aukist nokkuð á Vestfjörðum. En háönnin hefur verið stutt og ýmislegt mætti betur fara til að laða ferðafólk meira á staði sem ekki eru jafn fjölsóttir og til dæmis Látrabjarg og Dynjandi. 

Bjarnheiður ferðafulltrúi Dala og María atvinnuþróunafulltrúi á Reykhólum og Ströndum hafa áhuga á að blása lífi í samstarf ferðaþjóna að svæðinu. Tilgangurinn væri að efla ferðamennsku á haustin og veturna og koma þjónustunni betur á framfæri. Á næstunni verður haft samband við ýmsa þá sem vitað er að hafa þjónað ferðafólki, en nýtt fólk er velkomið í hópinn og ætti að hafa samband í tölvupósti sem hér segir: ferdamal (hjá) dalir.is   og mmaaria  (hjá) atvest.is . Stefnt er að því að efla tengsl, þróa afþreyingu og koma henni betur á framfæri, efla merkingar og upplýsingar til ferðafólks.