| | |

Fiskeldisráðstefna 2013

1 af 3

Ráðstefna um forsendur sjókvíaeldis og skelræktar við Ísland
„Fiskeldi í köldum strandsjó Íslands „

Fjölmenn ráðstefna um fiskeldi á Patreksfirði.
Aðstandendur og skipuleggjendur ráðstefnunnar „Fiskeldi í köldum strandsjó Íslands“ eru hæstánægðir með mætingu og viðtökur ráðstefnugesta. Fjölmargir lögðu leið sína á Patreksfjörð og fylltu allt gistirými í bænum svo og á Tálknafirði. Alls komu 170 gestir frá fiskeldisfyrirtækjum, stjórnsýslu, rannsóknastofnunum og frá ýmsum þjónustugreinum og um 130 gestir mættu til hátíðarkvöldverðar á fimmtudagskvöldið. Samhliða ráðstefnunni var haldin vörusýning frá fyrirtækjum frá Íslandi, Noregi og Færeyjum í fremri sal félagsheimilisins.

Á ráðstefnunni skrifuðu Shiran Þórisson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Víkingur Gunnarsson framkvæmdastjóri Arnarlax undir samning vegna laxabitaframleiðslu Arnarlax á Bíldudal.

Með tilkomu Fosshótels Vestfirðir á Patreksfirði er mögulegt að halda slíka viðburði í bænum. Félagsheimili Patreksfjarða hentar einstaklega vel til ráðstefnuhalds og fremri salurinn rúmar vel sérhæfða vörusýningu. Vegna þess hversu góðar viðtökur ráðstefnan fékk hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fiskeldisklasi Vestfjarða í hyggju að endurtaka slíkan viðburð með reglulegum hætti á komandi árum.

Erindi á ráðstefnunni má nálgast hér til hliðar undir liðnum 'Glærur frá ráðstefnu'.

Myndir frá ráðstefnunni eru hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og upplýsingar fyrir fjölmiðla er hægt að fá hjá verkefnisstjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarðar á Patreksfirði Magnúsi Ólafs Hanssyni í s. 4902301 og magnus@atvest.is 

Almennt um ráðstefnuna

Þann 3.-4. október 2013 verður haldin ráðstefna á Patreksfirði undir yfirskriftinni "Ráðstefna um forsendur sjókvíaeldis og skelræktar við Ísland". Ráðstefnan er haldin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða í samstarfi við Fiskeldisklasa Vestfjarða.

Víða um heim er stundað fiskeldi og skelrækt á norðlægum slóðum með góðum árangri. Framundan virðist vera mikill vöxtur í þessari atvinnugrein hérlendis. Innviðir stjórnkerfis virðist á mörgum sviðum vera ílla undirbúið fyrir þá uppbyggingu. Grunnþekking á umhverfisþáttum og burðarþoli strandsvæða er einnig takmörkuð og nauðsynlegt að stórefla rannsóknir. Á Vestfjörðum eru talin vera mikil tækifæri á þessu sviði eins og víða hér við land, og því hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða ákveðið í samstarfi við Fiskeldisklasa Vestfjarða að efna til þessarar ráðstefnu. Vonast er til að ráðstefnan geti orðið mikilvægt skref til að efla samstarf stjórnsýslu, rannsóknastofnana og fyrirtækja til að þróun fiskeldis geti orðið farsæl hérlendis eins og hjá okkar nágrannaþjóðum.

Margir þekktir fyrirlesarar munu sækja ráðstefnuna heim og má nefna Per Gunnar Kvenseth sem hefur víðtæka reynslu af rannsóknum og ráðgjafastörfum innan Norsks fiskeldis. Þá verður einnig Cyr Couturier sem starfar sem sérfræðingur við sjávarútvegsstofnun við háskólann í St. Johns, Memorial Univercity. Ennfremur mun fjöldi Íslendinga munu flytja fyrirlestra á ráðstefnunni og má í því sambandi nefna, Héðinn Valdimarsson og Hafstein Guðfinnsson frá Hafrannsóknastofnun, Helga Jensson frá Umhverfisstofnun, Gunnar Eydal frá Teiknistofunni Eik, Jón Örn Pálsson og Jónatan Þórðarson frá Fjarðalax og Shiran Þórisson framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Stjórnandi og ráðstefnustjóri verður Þorgeir Pálsson

Nánari upplýsingar um skráningu, flug, gistingu gefur ferðaskrifstofan Westfjords Adventure og er hægt að hafa samband við Gunnþórunni Bender í síma: 456-5006 og gsm:690-8025.

Ráðstefnan er öllum opin að undangenginni skráningu. Ekkert skráningagjald er á ráðstefnuna.